Hvassri norðanátt og snjókomu spáð í nótt

Skjámynd af spá Veðurstofunnar fyrir Strandir og Norðurland vestra kl. 6 í fyrramálið.
Skjámynd af spá Veðurstofunnar fyrir Strandir og Norðurland vestra kl. 6 í fyrramálið.

Veðurstofan gerir ráð fyrir smá hvelli í nótt, aðfaranótt miðvikudags, og hefur gefið út gula viðvörun vegna slæmrar veðurspár fyrir mest allt landið. Hér á Norðurlandi vestra gildir viðvörunin frá kl. 23 í kvöld til kl. 7 í fyrramálið. Á því tímabili má reikna með norðan 15-20 m/s og snjókomu, skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. „Varasamt ferðaveður,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Það styttir upp og dregur úr vindi þegar líður á morguninn og reiknað er með að veður verði orðið skaplegt upp úr hádegi. Það hvessir svo aftur aðra nótt og hitinn skríður upp fyrir frostmark og á fimmtudagsmorgni gæti rignt í byggð en snjóað á fjallvegum. Á föstudag kólnar á ný og frostið gæti farið vel yfir 10 stigin inn til sveita aðfaranótt laugardags ... áður en hitastigið tekur annað flikk flakk á sunnudag.

Þetta er víst það sem kallast umhleypingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir