Hver er munurinn á safni, setri og sýningu og fyrir hvað stendur Byggðasafn Skagfirðinga?

Í ljósi frétta um sýndarveruleikasafn, -setur eða -sýningu á Sauðárkróki, eftir því hvaða fjölmiðill hefur fjallað um þann veruleika, er ekki úr vegi að útskýra hver munurinn á þessu þrennu er. Sömuleiðis langar mig til að benda á hvaða áhrif uppsetning og rekstur sýndarveruleikasafns, -seturs eða -sýningu á Aðalgötu 21 a-b mun hafa á Byggðasafn Skagfirðinga. Ef Byggðasafnið missir húsnæðið sem það átti að fara inn í, af því að búið er að selja Minjahúsið þar sem safnið hefur haft safngeymslu, rannsóknaraðstöðu, skrifstofur og sýningar, mun það þrengja mjög að starfsemi þess. Í framhaldi er mér ljúft og skylt að útskýra fyrir hvað Byggðasafn Skagfirðinga stendur.

Hvar sem söfn starfa í heiminum vinna þau samkvæmt þeirri grundvallarsýn að varðveita frumgögn menningararfsins. Það hlutverk setur þeim margvíslegar skyldur á herðar. Í 3. gr. Safnalaga nr. 141 frá 2011 er kveðið á um hlutverk safna. „Söfn í skilningi laga þessara eru varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni“. Þau eiga að stunda söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir, halda sýningar og standa fyrir annarri miðlun. Hlutverk safna er „að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, [ ... ] og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum“.

Í 5. gr. Safnalaga er önnur safnatengd starfsemi skilgreind s.s. safnvísar, setur og sýningar.

„Setur sinna að jafnaði rannsóknum og miðlun fremur en söfnun og varðveislu.“ Setur sem miðla sögu og menningu eru mörg hver í einkaeign og þau eru flest rekin í hagnaðarskyni.

„Sýningar eru sjálfstæðar rekstrareiningar sem sinna miðlun fremur en söfnun, varðveislu og rannsóknum.“ Sérreknar sýningar eru oftar en ekki reknar í hagnaðarskyni.

Hvar sýndarveruleikasafn, -setur, -sýning á heima fer eftir skilgreiningu og hlutverkum en sennilega verður seint auðvelt að safna eða varðveita sýndarveruleika.

Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem Safnalög ná til. Söfn geta sótt um að fá viðurkenningu til ráðherra að fenginni tillögu Safnaráðs, sem er til ráðgjafar um málefni safna. Skilyrði viðurkenningar eru talin í 10. gr. Safnalaga. Þar segir m.a. að safn eigi að vera fjárhagslega tryggt og með sjálfstæðan fjárhag og starfa í samræmi við skilmála safnaráðs um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi og faglega starfsemi og í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga.

Byggðasafn Skagfirðinga er landshlutabundið viðurkennt minjasafn. Á síðustu öld voru sett á fót minjasöfn í mörgum byggðum landsins og drógu sum hver nöfn af byggðunum þar sem þau voru stofnuð. Byggðasafn Skagfirðinga er eitt af elstu minjasöfnunum, stofnað 29. maí 1948. Síðan þá hafa Skagfirðingar falið safninu menningarverðmæti til varðveislu og miðlunar og rannsóknir síðustu áratuga á munum og minjaumhverfi hafa varpað mikilvægu ljósi á sögu skagfirskra byggða. Að varðveita minjaarf Skagafjarðar og Skagfirðinga til framtíðar svo næstu kynslóðir geti notið hans og nýtt hann er ekki léttvægt hlutverk.

Safnið hefur haft starfsstöð í Glaumbæ frá því sett var upp sýning í gamla torfbænum þar sumarið 1952, með leyfi Þjóðminjasafns Íslands, sem á bæinn. Frá 1991 hefur önnur megin starfsstöð safnsins, varðveisla og rannsóknir, verið á Sauðárkróki. Síðustu áratugina hefur sú starfsstöð verið í Minjahúsinu við Aðalgötu 16b. Safnið hefur lánað muni til fjölda sýninga á mörgum stöðum í Skagafirði og safnmunir frá Byggðasafni Skagfirðinga hafa myndað megin sýningarefni hjá Vesturfarasetrinu á Hofsósi frá 1996 og hjá Sögusetri íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal frá 2007. Gerðir eru skilmálabundnir samningar um lán á sýningargripum til hverrar sýningar.

Skásti kosturinn, í þeirri stöðu sem upp er komin, er að Byggðasafnið fái húslengjuna á Aðalgötu 21 a-b til sýningahalds, eins og upphaflega stóð til. Safnið gæti auðveldlega fengið aðra inn með sýningar, í samvinnu eða út af fyrir sig, líka sýndarveruleikasýningar, væri vilji fyrir því. Væru settar upp sýningar sem byggðust á safnkostinum myndi það rýmka fyrir þeim safnmunum sem geymdir yrðu í nýju bráðabirgðahúsnæði, sem er í smíðum. Sú tilhögun myndi líka skapa ágæta söfnunar-, skráninga- og rannsóknamöguleika fyrir Byggðasafnið. Möguleikar safnsins til sýningahalds eru margir og spennandi, t.d. tengdir niðurstöðum fornleifarannsókna undanfarinna ára, sögu Sauðárkróks eða skagfirskum tónlistararfi, svo eitthvað sé nefnt. Einnig væri spennandi að setja upp sýningu um áhrif Héraðsvatna á mannlíf í Skagafirði í samstarfi við Náttúrstofu Norðurlands vestra. Margt, margt fleira spennandi mætti telja.

Það er mikilvægt fyrir okkur öll að Byggðasafni Skagfirðinga verði gert kleift að þróa starfsemi sína í takt við nýjar áherslur í samfélaginu hverju sinni, hvort sem þær eru af tæknilegum toga eða félagslegum. Ég vona að Byggðasafnið verði ekki látið koðna niður í andvaraleysi þannig að uppbygging þess menningarstarfs, sem það hefur staðið að í áratugi, renni í sundur eða stöðvist.

Sigríður Sigurðardóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir