Í dag er dagur leikskólans
Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í dag, þriðjudaginn 6. febrúar. Þetta mun vera í ellefta skipti sem haldið er upp á daginn en 6. febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið enda er tilgangur Dags leikskólans að vekja athygli á hlutverki leikskóla og starfi leikskólakennara.
Af þessu tilefni ætla börnin á eldra stigi Ársala á Sauðárkróki að bregða sér í Skagfirðingabúð og syngja fyrir viðstadda kl. 9:45. „Hlökkum til að sjá foreldra og aðrir áhugasama,“ segir á Facebooksíðu leikskólans.
Í Barnabæ á Blönduósi er foreldrum boðið í morgunmat og eru allir foreldrar hvattir til að gefa sér tíma og njóta stundarinnar með börnunum.
Á Barnabóli á Skagaströnd er opið hús og eru áhugasömum boðið að koma og kynna sér starfið milli 9 og 11:30.
Í Ásgarði í Húnaþingi vestra er ætlunin að hafa það notalegt í tilefni dagsins, syngja saman, fara með vísur og njóta góðra veitinga í sameiginlegri samverustund.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.