Íslenska gæðingakeppnin – landsmótið 1950

Efsti gæðingurinn á mótinu 1950, Stjarni frá Hólum. Skyldleikaræktaður af Svaðastaðastofni. Knapi Ingólfur Guðmundsson. Ljm. óþekktur, úr bókinni Í morgun ljóman.
Efsti gæðingurinn á mótinu 1950, Stjarni frá Hólum. Skyldleikaræktaður af Svaðastaðastofni. Knapi Ingólfur Guðmundsson. Ljm. óþekktur, úr bókinni Í morgun ljóman.

Kæru lesendur, ég vil fyrst óska ykkur gleðilegs árs og þakka samfylgd á liðnum árum, tökum svo upp þráðinn þar sem frá var horfið í síðustu grein (Íslenska gæðingakeppnin bls. 9 í 46. tbl. Feykis, 4. des. 2019). Þar fjallaði ég um tilurð íslensku gæðingakeppninnar en samkvæmt fyrirliggjandi heimildum var fyrsta gæðingakeppnin haldin árið 1944 við Sandlækjarós í Gnúpverjahreppi, endaði ég greinina á að drepa stuttlega á gæðingakeppni fyrsta landsmótsins sem haldið var á Þingvöllum árið 1950. Verður nú haldið áfram þar sem frá var horfið í þeirri umfjöllun.

Í frásögninni styðst ég áfram við bókina Í morgun ljómann ...Saga LH í 35 ár. Skráð af Steinþóri Gestssyni og Landssamband hestamannafélaga gaf út 1987. Þar er tekið fram að tveir dagskrárliðir landsmótsins hafi verið alfarið á hendi LH, annars vegar sýningin „á geltum tömdum reiðhestum“, eins og það er orðar í téðu riti og hins vegar kappreiðarnar sem þegar hefur verið gerð skil í greinaflokki þessum. Um tilurð gæðingakeppninnar segir svo á bls. 33 til 34 í ritinu: „Formaður LH bar fram tillögu um það sýningaratriði á stjórnarfundi og var það samþykkt. Segja má að það mætti kallast nýmæli að hafa slíka sýningu við hliðina á sýningu kynbótagripanna, þótt því sé ekki gleymt að nokkur hestamannafélög hefðu um árabil haft gæðingakeppni á hestaþingum sínum og hafði hún notið almennra vinsælda.

Stjórnin var sammála um að koma á þessum keppnis- og sýningarþætti; vildi með því fá nokkurn samanburð á kynbótagripunum og þeim hestum sem reynst höfðu úrvalsgæðingar en af einhverjum sökum höfðu ekki náð að fylla hóp stóðhestanna.“

Í síðustu grein minni var fjallað um fjölda þátttökuhesta og voru félögin sjálf alfarið ábyrg fyrir vali þátttökuhestanna. Og segir um það á bls. 34 í sama riti: „Það liggur ekki ljóst fyrir hvaða aðferðum var beitt við það val en ekki verður dregið í efa að til Þingvallamótsins hafi verið stefnt þeim gæðingum sem stóðu í fremstu röð í hverju félagi að því er varðar þjálfun og kosti reiðhestsins.“ Á bls. 35 í ritinu segir svo ennfremur: „Jafnframt því að bera saman gæðingana og kynbótahrossin var það hugmynd stjórnarinnar að fá um það dæmt hvernig úrvalsgæðingarnir á Íslandi væru á tímamótaárinu 1950, hverjum kostum þeir væru búnir og í hverju þeim væri áfátt.“

Í því atriði að fá fram stöðumat á hvar fremstu gæðingar landsins stæðu á árinu 1950 var hvatning fólgin að vanda svo til vals dómnefndarmanna sem nokkur kostur var. Skipuðu enda dómnefndina einvörðungu menn hoknir af reynslu og komnir vel á efri ár (meðalaldur rúmlega 66 ár). En eins og fram kom í síðustu grein voru það: Eggert Jónsson frá Nautabúi, formaður dómnefndarinnar, Ásgeir Jónsson frá Gottorp og Ásgeir Jónsson frá Hjarðarholti. En um röksemdina fyrir vali dómnefndarmannanna segir á bls. 35 í hinu tilvitnaða riti: „.... var það ætlun stjórnarinnar að fá það staðfest og skjalfest hvernig hinir bestu hestamenn af hinum gamalgróna íslenska reiðskóla litu á og skilgreindu kosti bestu gæðinga sem til voru í landinu árið 1950 þar sem vonir stóðu til að á því ári yrði hverfipunktur í sögu hrossaræktar á Íslandi.“

Um dómsaðferðina segir síðan í ritinu: „Gæðingarnir voru ekki dæmdir eftir stigum eins og kynbótahrossin, heldur var leitast við að meta eiginleika þeirra á gamla vísu með heildaryfirsýn og skrá útkomunina niður í orðum, gefa um þá umsögn.“ Síðan segir: „Þessi aðferð hefur þann galla, að torvelt er að bera hestana saman við kynbótagripina þegar frá líður, en aftur á móti þá augljósu kosti að staðfest er, þótt aðeins sé það í orðum, hverjum augum hesta- og tamningamenn fyrri tíma litu reiðhestinn og hverjar kröfur skyldi gera til hans í byggingu og kostum.“

Vissulega er allt það sem hér segir satt og rétt en hitt er að dæma með þessum hætti; vega og meta gripina sjónmati og gefa svo skriflega umsögn var rótgróin aðferð á þessum tíma og hafði verið notuð af ráðunautum allt frá upphafi búfjársýninga hér á landi. Þar á meðal af fyrstu ráðunautunum sem dæmdu hross á sýningum. Ásgeir frá Gottorp var til að mynda reyndur meðdómandi Theodórs Arnbjörnssonar, m.a. á sauðfjársýningum, og þá var dæmt með þessari aðferð. Gunnar Bjarnason var hins vegar byltingarkenndur framfaramaður og hugmynd hans að fara að dæma kynbótahrossin á tölulegum kvarða var stórkostleg hugmynd.

Dómsorð í gæðingakeppninni
Í Ársriti Landssambands hestamannafélaga 1951 var m.a. birt á bls. 62 til 63 ræða sem formaður gæðingadómnefndarinnar, Eggert frá Nautabúi, flutti þegar dómum gæðinganna var lýst. Það er merk heimild, hvoru tveggja hvað varðar stefnumótun þessara reyndu manna við dómstörfin og mat þeirra á stöðu íslenska gæðingsins árið 1950.

Þar segir hvað stefnumótun við dómstörfin varðar að þeir hafi reynt að meta reiðhestakostinn eftir þeim kröfum sem gerðar voru „í tíð okkar eldri manna“ eins og komist var að orði. Áherslan var lögð á, í fyrsta lagi „gott og viðunandi fjör, ásamt fallegum höfuðburði, mýkt og hlýðni í taumnum“; í öðru lagi „hreinn, fjölhæfur og fjaðurmagnaður gangur“; í þriðja lagi að „heildarsvipur hestsins beri með sér góða reiðhestskosti og hreyfingar hans séu frjálsar og glæsilegar“ og í fjórða lagi „að tekið sé tillit til útlitsfegurðar og glæsilegrar reiðhestsbyggingar.“

Síðan er sagt frá því í ræðunni að mikið hafi þurft að slá af kröfum hvað tamningu og þjálfun varðar svo hestarnir teldust fullmótaðir gæðingar; einkum þó hvað vekurðina varðar þannig að fáir hestar þó góðhestar teldust færu á „kostum fullkominn sprett“, dómnefndarmennirnir hefðu þurft að sætta sig við stutt skeiðhrifs og „meta eðlisvekurð hestsins eftir því“.

Síðan ræddi Eggert mikið um töltið, lagði áherslu á skynsamlega notkun og þjálfun þess, varaði við misnotkun þess sem hraðagangtegund og sagði: „Með tölthraðanum tapast fljótlega hin fjaðurmagnaða mýkt og dillandi hreyfing, fótlyftan lækkar, fjörgleðin dofnar, og eftir verður með tímanum vélræn gangtegund, óþægileg fyrir riddarann, ofraun og eyðileggjandi fyrir hestinn.“ Predikaði hann svo fyrir aukinni hagnýtingu brokksins svo hestar mættu verða þannig þjálfaðir að sýna mætti á þeim listtölt á hestaþingum. Þarna voru svo sannarlega mælt vísdómsorðin er áratugir liðu þar til menn náðu þeim og lærðu í verkunum að hafa þau eftir!

Lokaorð ræðunnar, áður en byrjað var að lýsa efstu hestunum, voru þessi: „Við teljum enga hesta í þessum hestahópi fullþjálfaða snillinga á gamla vísu, þótt hér séu margir snjallir góðhestar. En máske segið þið, að sá dómur byggist á hillingum æskuminninga gamalla manna.“

Kristinn Hugason.

Áður birst í 1. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir