Kærir málsmeðferð Sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika

Sigurjón Þórðarson, Skagafjarðarlistanum. Mynd af FB.
Sigurjón Þórðarson, Skagafjarðarlistanum. Mynd af FB.

Sigurjón Þórðarson, varafulltrúi Skagafjarðarlistans í sveitarstjórn Svf. Skagafjarðar hefur sent kæru til sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem óskað er eftir aðkomu þess vegna ólögmætrar stjórnsýslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar, á grundvelli 109 gr. laga nr. 138/2011. Um er að ræða samninga sveitarfélagsins við Sýndarveruleika ehf. og samning við hugbúnaðarfyrirtæki um hönnun og stjórnun á uppbyggingu á húsnæði við Aðalgötu 21 á Sauðárkróki, fyrir starfsemi Sýndarveruleika ehf.

Í kærunni segir að ljóst sé að meðferð málanna hafi hingað til stangast algerlega á við fyrrgreind lög (103 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011) sem segir til um skyldu sveitarstjórna til að upplýsa íbúa um mál sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu og langtíma skuldbindingar fyrir sveitarfélagið, auk þess sem það sé í anda góðra stjórnsýsluhátta.

„Íbúum Skagafjarðar hafa ekki verið veittar lögbundnar upplýsingar með greinargóðum hætti um umfang, tímalengd og eðli þeirra fjárhagslegu skuldbindinga og ívilnana sem sveitarfélagið hyggst veita fyrirtækinu. Því síður um tengdan kostnað sem af ákvörðunum hlýst, svo sem við að finna starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga aðra aðstöðu fyrir starfsemi sína en því var áður ætluð,“ ritar Sigurjón í kæru sinni.

Hann segir að við umfjöllun málsins hafi minnihluta sveitarstjórnar verið þröngur stakkur skorinn og í kjölfar ræðu sinnar um safnamál á síðasta fundi sveitarstjórnar, hafi honum verið tilkynnt að framganga hans á fundinum myndi hafa afleiðingar fyrir störf hans á vegum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Fer Sigurjón fram á að ráðuneytið taki málið til afgreiðslu og afgreiði fyrir næsta sveitarstjórnarfund svo málin fái lögmæta meðferð.

 

Hér fyrir neðan má sjá bréf Sigurjóns til Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra samgöngu-og sveitarstjórna: 

Efni: Ósk um aðkomu ráðuneytis sveitarstjórnarmála vegna ólögmætrar stjórnsýslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar, á grundvelli 109 gr. laga nr. 138/2011. 

Forsvarsmenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafa gert leynilega samninga við Sýndarveruleika ehf. og samning við hugbúnaðarfyrirtæki um; hönnun og stjórnun á uppbyggingu á húsnæði við Aðalgötu 21 á Sauðárkróki, fyrir starfsemi Sýndarveruleika ehf. Málið tengist með beinum hætti Byggðasafni Skagfirðinga, þar sem umrætt húsnæði var keypt og ætlað sem framtíðarhúsnæði fyrir Byggðasafnið og sýningar á þess vegum og er safnið og starfsemi þess því nú orðið húsnæðislaust. Að því marki sem tekst að koma munum í geymslu, starfsemi í annað húsnæði og sýningum sem ekki verður pakkað til geymslu mun það fela í sér kostnað vegna húsnæðiskaupa eða leigu sem ekki hefði fallið til ef Byggðasafnið með starfsemi sinni hefði farið í það húsnæði sem því var upphaflega ætlað.

Það er ljóst að meðferð málanna hefur hingað til stangast algerlega á við 103 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem segir til um skyldu sveitarstjórna til að upplýsa íbúa um mál sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu og langtíma skuldbindingar fyrir sveitarfélagið, auk þess sem það er í anda góðra stjórnsýsluhátta. Íbúum Skagafjarðar hafa ekki verið veittar lögbundnar upplýsingar með greinargóðum hætti um umfang, tímalengd og eðli þeirra fjárhagslegu skuldbindinga og ívilnana sem sveitarfélagið hyggst veita fyrirtækinu. Því síður um tengdan kostnað sem af ákvörðunum hlýst, svo sem við að finna starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga aðra aðstöðu fyrir starfsemi sína en því var áður ætluð. Málatilbúnaður allur er með þeim hætti að telja verður hafið yfir vafa að sveitarfélagið og forsvarsfólk þess mun ekki sinna þessari skyldu sinni án atbeina ráðuneytisins. Því er ennfremur óskað eftir því að ráðuneytið hlutist til um að Sveitarstjórn Skagafjarðar taki samningana ekki til fullnaðarafgreiðslu fyrr en álit ráðuneytisins liggur fyrir og tryggt verði að farið verði að lögum.

Það leikur einnig verulegur vafi á því að samningarnir séu í samræmi við 65. gr. sveitarstjórnarlaga sem fjalla um ábyrga meðferða fjármuna. Í greininni segir að sveitarfélögum sé óheimilt að fjárfesta í hagnaðarskyni nema þeim sé falið það lögum samkvæmt, en með þeirri undantekningu þó að ef um brýna samfélagslega hagsmuni sé að ræða.

Við rannsókn málsins er óskað eftir því að litið verði sérstaklega til þess hvort að leynilega samningagerðin sé í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 120/2016.

Samningarnir eiga enn eftir að fá samþykki í Sveitarstjórn Skagafjarðar, en afgreiðslu þeirra var frestað á síðasta fundi sveitarstjórnarinnar. Það ríður á að ráðuneytið taki málið til afgreiðslu og afgreiði fyrir næsta fund, þannig að málin fá lögmæta meðferð - Sagan af langtíma leynilegum samningum sveitarfélaga sem tíðkuðust á Reykjanesi, hræðir óneitanlega.

Við umfjöllun málsins hefur minnihluta sveitarstjórnar verið þröngur stakkur skorinn og í kjölfar ræðu minnar um safnamál á síðasta fundi sveitarstjórnar, þá var undirrituðum tilkynnt að framganga mín á fundinum myndi hafa afleiðingar fyrir störf mín á vegum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Sigurjón Þórðarson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir