Leiðari: Hvar er krummi?

Mynd tekin af vísindavefnum.
Mynd tekin af vísindavefnum.

Leiðari vikunnar er meira svona hugleiðing um hvað varð af krummanum hér á Króknum því á tal við Feykisfólkið kom ágætur áskrifandi sem hafði áhyggjur, já eða skildi ekki hvað hefði orðið af krumma. Þannig vill til að þar sem maðurinn heldur til við sín störf hafa yfirleitt verið nokkuð mörg krummapör í gegnum árin og hann fylgst með þeim og taldi, þegar mest var, um 17 pör.

Fyrir nokkrum vikum síðan hurfu sem sagt allir krummarnir sem honum þótti skrítið. Krummi er nefnilega staðfugl og heldur til í þéttbýlinu og hafa haldið til hér og þar í bænum. Ég hef t.d. séð krúttlegt krummapar hjá N1 um langt tímabil en ekki séð lengi núna. Hvað segja þeir krummavinir sem hafa verið að fara upp á Nafir að gefa þeim alls kyns matarúrgang, sem honum þykir eflaust algjört lostæti, því krummi leggur sér ýmislegt til goggs. Aðallega hræ og úrgang sem til fellur og étur í raun allt sem hann kemst í. Hafið þið orðið vör við krumma?

Ég heyrði einu sinni góða sögu frá konu hér í bæ sem fór alltaf á sama tíma og gaf krumma að borða upp á Nöfum, sem er gott og blessað, nema hvað að eitthvað fór að vera meira að gera hjá konunni sem hafði ekki tök á að fara með leifarnar til krumma upp á Nafir og hvað gerði hann þá…. Hann var mættur fyrir utan heima hjá henni og drullaði á bílinn hennar, svo móðgaður var hann yfir því að hún sinnti sér ekki. Þetta staðfestir líka hversu gáfaðir þeir eru því bílinn hennar þekkti krummi langar leiðir. En aftur yfir í hvað varð af krumma. Ég ákvað að senda fyrirspurn á nokkra aðila til að kanna hvort eitthvað hafi spurst af
dauðum hrafni hér í bæ og í grenndinni því maðurinn var með áhyggjur yfir því að hugsanlega hafa þeir drepist og það á því að gæða sér á fuglshræjum sem væru smituð af fuglaflensu, sem gæti vel verið, en enginn svör fengið við póstunum sem ég sendi.

Í dag má hins vegar skjóta krumma allt árið um kring en veiðar á honum þarf að tilkynna til Umhverfisstofnunar. Þetta vissi ég ekki því ég hélt að hrafninn væri friðaður og var því ekki búin að kanna þann möguleika. Kannski er bara einhver að skjóta þennan fallega fugl sem annað hvort virðist vera elskaður eða hataður!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir