Karnival dýranna í Miðgaði

Myndir af FB-síðu Kristínar Höllu.
Myndir af FB-síðu Kristínar Höllu.

Tónadans og Tónlistarskóli Skagafjarðar setja saman upp Karnival dýranna fyrir dansara og hljómsveit í Menningarhúsinu Miðgarði nk. sunnudag 26. mars kl. 14. Fram koma nemendur og kennarar Tónlistarskólans og Tónadans. Höfundur dansa er Cristina Sabate Perez, Elena Zharinova og Ólöf Ólafsdóttir en tónlistarstjórn er í höndum Joaquin De La Cuesta Gonzalez.

Kristín Halla Bergsdóttir er listrænn stjórnandi og segir hún á Facebooksíðu sinni um tónlistarverkið Karnival dýranna, eftir franska tónskáldið Camille Saint-Saëns, það stutta tónlistarþætti um dýr sem eru að skemmta sér.

„Verkið er víðkunnugt, eins konar tónlistardýragarður þar sem dansarar, sögumaður og hljóðfæraleikarar sameinast og skapa heim sem auðvelt er fyrir unga sem aldna að lifa sig inn í. Flytjendur á sýningunni verða dansarar frá Tónadansi, sögumaður og hljóðfæraleikarar frá Tónlistarskóla Skagafjarðar og Tónadansi auk kennara beggja skóla.

Joaquin hefur útsett hluta verksins fyrir hljómsveit Tónlistarskólans, Cristina, Ólöf, Elena og Kristín Halla semja dansa og hanna búninga sem henta hverju dýri fyrir sig.“
Segir hún að fluttir verða valdir kaflar úr verkinu og allir velkomnir. Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir