Kópavogspiltar höfðu betur í toppslagnum

Jónas Aron Ólafsson gerði fyrsta mark Stólanna en fór snemma í sturtu eftir að hafa fengið að skoða gula spjaldið tvisvar hjá dómaranum. MYND: ÓAB
Jónas Aron Ólafsson gerði fyrsta mark Stólanna en fór snemma í sturtu eftir að hafa fengið að skoða gula spjaldið tvisvar hjá dómaranum. MYND: ÓAB

Það var toppslagur í B-riðli 4. deildar í gærkvöldi þegar Tindastólsmenn sóttu kappana í liði KFK heim. Leikið var í Fagralundi í Kópavogi og ljóst að sigurliðið væri komið í lykilstöðu í riðlinum. Liðin höfðu gert 1-1 jafntefli á Króknum í fyrstu umferðinni í sumar og þá var ljóst að mótherjinn hafði á að skipa vel spilandi liði. Það fór svo í gær að þeir reyndust örlítið sterkari á svellinu og uppskáru 3-2 sigur.

Það tók heimamenn aðeins tvær mínútur að ná forystunni en þar var að verki Steinar Aron Magnússon. Markatrymbillinn Jóhann Daði varð að hverfa af velli eftir sjö mínútna leik og Sigurður Pétur kom inn í hans stað. Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik en fjórir leikmenn fengu að líta gula spjaldið, þar af þrír KFK-menn.

Jónas Aron jafnaði metin á 49. mínútu en hann fékk að líta sitt annað gula spjald á 70. mínútu og þar með rautt. Keston George kom liði KFK yfir á ný fimm mínútum síðar en Konni jafnaði á ný tveimur mínútum síðar. Síðasta orðið átti hins vegar Óðinn Ómarsson á 84. mínútur en áður en yfir lauk jafnaði dómari leiksins leikmannafjöldann í liðunum en hann vísaði Ingva Þór Albertssyni af velli á 89. mínútu.

KFK situr því núna á toppi B-riðils með 20 stig eftir átta leiki en lið Tindastóls í öðru sæti með 17 stig. Úlfarnir eru síðan með 13 stig og lið RB með 12. Þetta var fyrsta tap Tindastóls í sumar en á sunnudaginn mætir lið Afríku á Sauðárkróksvöll og hefst leikurinn kl. 16.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir