Lagt til að formlegar sameiningarviðræður hefjist í A-Hún

Sameiningarnefnd sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu hefur samþykkt að leggja til við sveitarstjórnir Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður.

Á Húna.is kemur fram að lagt sé til að sveitarfélögin samþykki að skipa tvo fulltrúa hvert sveitarfélag og tvo til vara í samstarfsnefnd sem kanna skal möguleika á sameiningu sveitarfélaganna í samræmi við 119. grein sveitarstjórnarlaga.
„Í því felst að sveitarfélögin hefja formlegar sameiningarviðræður sem lýkur með kosningu íbúa. Sveitarstjórar skulu hafa seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum samstarfsnefndar.
Markmiðið er að sameining sveitarfélaganna leiði til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum slagkrafti við að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum.“

Í annarri frétt Húna.is segir að fulltrúar Sveitarfélagsins Skagastrandar í sameiningarnefnd sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu telji að komi til sameiningar eigi öll stjórnsýsla sameinaðs sveitarfélags að vera til frambúðar á Skagaströnd.

„Vel heppnað fordæmi fyrir slíku fyrirkomulagi megi finna í Snæfellsbæ. Þar sé öll stjórnsýsla sveitarfélagsins á Hellisandi þrátt fyrir að Ólafsvík sé stærsti þéttbýliskjarninn.

Þetta kemur fram í bókun fulltrúanna á fundi sameiningarnefndarinnar 30. september síðastliðinn þegar stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags var til umræðu. Í bókuninni segir jafnframt að slíkt fyrirkomulag auki líkur á að sameining yrði samþykkt af íbúum Skagastrandar þar sem hluti af andstöðu við sameiningu tengist ótta við að öll störf og þjónusta endi í stærsta íbúakjarna sameinaðs sveitarfélags og fátt muni sitja eftir í heimabyggð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir