Leiðréttum stærsta arðrán Íslandssögunnar!!!

Aðalsteinn Jónsson

 

 

Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir risavaxinni ákvörðun í komandi kosningum. Eitt stærsta, ef ekki stærsta, réttlætismál Íslandssögunnar mun verða leitt til lykta á næsta kjörtímabili. Þjóðinni eða hagsmunaaðilum í hag. Deilan snýst um það hver sé réttmætur eigandi fiskistofnanna sem synda frjálsir um Íslandsmið. Í 1. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða stendur:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar“.

Ljóst er að fátt gæti verið fjarri sanni en að íslenska þjóðin geti talist hafa neitt með nytjastofnana að gera eins og staðan er í dag. Þó þarna sé talað um sameign þá er ljóst að deilan snýst í raun um nýtingarréttinn á þessari sameign þjóðarinnar, þ.e. kvótann. Nýtingarrétturinn á þessari „sameign“ er í höndum fámenns hóps útgerðarmanna sem geta farið með hann eins og þeim sýnist. Þessum nýtingarrétti var rænt af þjóðinni með setningu fiskveiðistjórnunarlaganna. Kvótanum er svo úthlutað samkvæmt lögum um 3. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þar stendur:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“

Þarna, sem og í ýmsum gögnum varðandi setningu laganna, kemur skýrt fram að íslenska ríkið áskilur sér rétt til þess að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu í takt við breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Nú er ljóst að þessi heimild hefur aldrei verið nýtt og er það vegna staðfastrar andstöðu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem standa vörð um óbreytt kerfi og þar með rétt manna til að eiga sameign þjóðarinnar! Enn eina ferðina kemur þetta skýrt fram í stefnulýsingum flokkanna og yfirlýsingum forystumanna þeirra.

Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn standa vörð um sægreifana!

Útgerðarmaðurinn Ásbjörn Óttarsson sem skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðismanna í NV-kjördæmi segir m.a. að það sé „alveg klárt í okkar huga að við ætlum að byggja á aflamarkskerfinu áfram“. Þá segir Gunnar Bragi Sveinsson sem skipar efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi segir það vera ljóst að byggja eigi áfram á því kerfi sem nú er við lýði. Það er ljóst að þessir tveir flokkar ganga líkt og undanfarin ár erinda útgerðarauðvaldsins á Alþingi, en ekki erinda fólksins í landinu, enda er yfirgnæfandi meirihluti landsmanna á móti kvótakerfinu.

Fyrir rúmu ári síðan kvað Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna upp úrskurð í máli tveggja íslenskra sjómanna þar sem skorið var úr um að kvótakerfið brýtur í bága við skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Kvað nefndin á um að íslenska ríkinu bæri skylda til þess að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið til samræmis við álit nefndarinnar sem og að sjómönnunum tveimur yrðu greiddar skaðabætur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið skýr í þeirri afstöðu sinni að skella skollaeyrum við áliti nefndarinnar og stendur Framsóknarflokkurinn fast að baki þeim í málinu. Þessir tveir flokkar telja því að mannréttindabrot séu ásættanleg á Íslandi.

Hræðsluáróður er besta vopn hagsmunaaðilanna

Það er vel þekkt aðferð margra sjávarútvegsfyrirtækja að starfsmönnum þeirra er gerð grein fyrir að þeir missi vinnuna kjósi þeir flokka sem hyggjast breyta kvótakerfinu. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir eigendur þessara fyrirtækja og til þess að standa vörð um þá halda hagmunaöflin því fram að með því að breyta kerfinu muni Samfylkingin leggja íslenskan sjávarútveg í rúst. Tillögur Samfylkingarinnar byggja á því að kvótinn verður innkallaður á að hámarki 20 árum. Það myndi þýða að 5% kvótans væri innkallaður á ári. Þetta heldur LÍÚ fram að muni setja fyrirtækin á hausinn og um leið allt íslenska bankakerfið. Þetta er auðvitað hreinasta firra, enda nota þessir aðilar öll tiltæk ráð til þess að verja hagsmuni sína. Raunar halda þeir því fram að fiskurinn skili þeim ekki nema 1,9 krónum í framlegð á kíló! Það yrði þó að teljast viðunandi árangur miðað við „hæfilegar“ arðgreiðslur margra útgerðanna sem og þann gríðarlegan vaxtakostnað sem þær bera eftir veðsetningu kvótans!

Lénsherragjald kvótagreifanna!

Það sem oft gleymist er að LÍÚ hafa kerfisbundið sölsað undir sig langstærstan hluta kvótans og með því orðið einráðir á leigumarkaði með kvóta. Með því hafa þeir getað leigt kvóta út á hátt í 90% gjaldi miðað við markaðsverð fisksins sem leigjandinn kemur með að landi! Þetta verð þurfa leiguliðar að greiða hvort sem þeim líkar betur eða verr. LÍÚ hlýtur að þykja þetta eðlileg og sanngjörn verðmyndun, enda leggja þeir sjálfir á gjaldið. Því er erfitt að sjá hvernig þeim getur þótt það ósanngjarnt að innkölluð séu 5% sameignar þjóðarinnar á ári. Hver myndi annars fara á sjó ef hann getur fengið 200 krónur á kíló án kostnaðar í stað þess að fara á sjó með tilheyrandi kostnaði og fá 230 krónur? Í þessu sambandi má nefna að það eru oftar en ekki stærstu útgerðarfyrirtækin sem leigja út kvótann, enda allt of kostnaðarsamt fyrir þær að sækja fiskinn sjálfar. Hérna er því um að ræða 21. aldar lénsherragjald sérhannað af sjóræningjunum í LÍÚ. Eins og reyndar kvótakerfið allt.

Skelfilegar afleiðingar kvótakerfisins

Hrikalegar afleiðingar kvótakerfisins ættu allir landsmenn að kannast við. Kerfið hefur leitt af sér að handhafar veiðiheimildanna geta veðsett þær til þess að útvega sér lausafé inn í rekstur sinn. Þetta hefur leitt af sér gríðarlega skuldsetningu greinarinnar sem talin er vera upp á að lágmarki 500 milljarða króna. Þetta þýðir að stór hluti afrakstursins af auðlindinni (nytjastofnunum) fer nú í að greiða vaxtakostnað vegna þessarar gríðarlegu skuldsetningar. Það sem er einna skelfilegast er að fjárglæframenn munu á meðan fiskveiðistjórnunarkerfið er í núverandi mynd alltaf koma til með að ásælast þessi verðmæti. Þetta má m.a. glöggt sjá á nýlegu máli varðandi HB Granda. ÞETTA ER Í BOÐI ÍSLENSKU ÞJÓÐARINNAR!

Geta fyrirtækjanna til að standa við skuldbindingar gagnvart starfsfólki sínu minnkar í takt við óhóflegar veðsetningar og vaxtakostnað fyrirtækjanna. Þar fyrir utan eru margir sem hafa selt sig út út greininni og skilið eftir skuldirnar og/eða heilu byggðalögin í rúst. Í því sambandi er auðvelt að nefna Flateyri, Stöðvarfjörð, Breiðdalsvík og nú síðast Eskifjörð. Þegar kvótakerfinu var komið á sagði Halldór Ásgrímsson að sér væri ljóst að af kerfinu myndi geta leitt byggðaröskun, en þær byggðir sem myndu missa frá sér kvóta gætu einfaldlega keypt hann til baka þegar betur áraði! Þetta eru auðvitað makalaus ummæli hjá Halldóri en fjölskylda hans hafði mikla hagsmuni af því að kvótakerfinu yrði komið á. Bæjarfélög sem hafa lent í miklum hremmingum vegna kvótakerfisins eru mörg og eiga eftir að verða miklu fleiri í framtíðinni verði kerfinu ekki breytt. Það óöryggi og sú byggðaröskun sem af þessu kerfi leiðir er lífsnauðsyn fyrir landsbyggðina að lagfæra. Sums staðar þarf raunar ekki nema hjónaskilnað eða andlát til þess að heilt byggðarlag geti misst frá sér stóran hluta aflaheimilda sinna!

Auðlindin nýtt á óvistvænan og þjóðhagslega óhagkvæman hátt

Krafan um vistvænar veiðar er að verða sífellt háværari í alþjóðasamfélaginu. Núverandi fyrirkomulag gerir að verkum að stóru útgerðirnar auka sífellt stærðir skipa sinna og þar með verður sífellt dýrara að sækja hvert veitt tonn, enda verða skipin sífellt orkufrekari. Staðreyndin er að stór togari er að fara með að minnsta kosti 20% af aflaverðmæti í olíukostnað á meðan litlir krókabátar eru að fara með u.þ.b. 2%. Þetta þýðir að fyrir hvert tonn sem sækja má með smærri bátum er 18% aflaverðmætisins sóað í gjaldeyriskaup! Þarna er um að ræða milljarðaverðmæti sem send eru úr landi áður en það er svo mikið sem búið að veiða fiskinn. Þetta fyrirkomulag er gríðarlega þjóðhagslega óhagkvæmt. Hagsmunir fárra eru látnir fara ofar hagsmunum heildarinnar. Svo má heldur ekki gleyma þeim gríðarlegu verðmætum sem hent er fyrir borð á þessum fljótandi mengandi (olíukyntu) frystihúsum. Það er augljóst að við ættum að gera þjóðhagslega hagkvæmum veiðum eins hátt undir höfði og hægt er líkt og tillögur Samfylkingarinnar gera ráð fyrir, enda verða mun meiri verðmæti eftir í þjóðarbúinu og hjá fólkinu sjálfu af slíkum veiðum.

Síðasta tækifærið til að breyta kvótakerfinu!

Það eru einna helst tvær ástæður fyrir því að nú gæti verið allra síðasta tækifæri okkar til þess að koma á breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu til samræmis við þjóðarhag. Í fyrsta lagi styrkist hefðarréttur handhafa kvótans með hverjum deginum sem líður. Að afloknu enn einu kjörtímabilinu getur þessi hefðarréttur verið orðinn svo sterkur að kvótinn verði ekki tekinn af handhöfum hans nema með því að ríkið, þ.e. við þjóðin, þurfi að greiða þeim fullar bætur. Í öðru lagi er mikil vinstrisveifla í þjóðfélaginu nú um stundir. Hana verðum við að nýta til þess að koma þessu stærsta réttlætismáli Íslandssögunnar í höfn, enda er óvíst að það takist að halda þeim flokkum (Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki) sem verja kvótakerfið frá ríkisstjórn nema í eitt kjörtímabil. Þessa vinstrisveiflu VERÐUM við að nýta til að koma veiðiheimildunum í hendur þjóðarinnar, þannig að íslenska þjóðin njóti arðs af auðlindinni en ekki gróðafíklar morgundagsins.

Samfylkingin hefur skýra og afdráttarlausa stefnu varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið sem kallast „Sáttagjörð um fiskveiðistefnu“ og miðar hún að því að hagsmunir þjóðarinnar verða hafðir ofar eiginhagsmunum. Samfylkingin hefur þann slagkraft og vilja sem þarf til þess að leiða þetta mál til lykta fyrir þjóðina alla. Til þess þarf stuðning þinn í komandi kosningum. Kjóstu hagsmuni þjóðarinnar ofar eiginhagsmunum. Steingrímur J hefur því miður gefið skýrt til kynna að hann ætlar sér ekki að standa við stefnu VG í sjávarútvegsmálunum. Því er augljóslega aðeins einn kostur í boði. Veittu Samfylkingunni umboð þitt til þess að breyta kvótakerfinu. Í næstu kosningum verður það of seint.

Aðalsteinn Jónsson, fyrrverandi sjómaður og stuðningsmaður stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum.

 

Sáttagjörð um fiskveiðistefnu

Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verði fiskveiðistefnan strax að loknum kosningum endurskoðuð í þeim tilgangi að skapa sátt við þjóðina um nýtingu auðlinda hafsins.

Markmið stefnunnar er:

         Að tryggja eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins.

         Að stuðla að atvinnusköpun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna.

         Að uppfylla skilyrði um jafnan aðgang að veiðiheimildum og uppfylla þar með kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

         Að auðvelda nýliðun í útgerð.

         Að tryggja þjóðhagslega hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna.

Aðgerðir til að ná þessum markmiðum:

1.       Þjóðareign á sjávarauðlindum verði bundin í stjórnarskrá með samþykkt þess stjórnarfrumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi. Markmið slíks ákvæðis um þjóðareign er að tryggja þjóðinni ótvíræð yfirráð allra sjávarauðlinda til framtíðar og fullan arð af því eignarhaldi.

2.       Stofnaður verður Auðlindasjóður sem sjái um að varðveita og ráðstafa fiskveiðiréttindum í eigu þjóðarinnar.

3.       Arður af rekstri Auðlindasjóðs renni einkum til sveitarfélaga og verði einnig notaður til annarra samfélagslega verkefna, s.s. haf- og fiskirannsókna. Kannaðir verði kostir þess að fela Auðlindasjóði jafnframt umsýslu annarra auðlinda í þjóðareign og felur fundurinn framkvæmdarstjórn að skipa starfshóp sem útfærir nánar tillögur um Auðlindasjóð.

4.       Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verði innkallaðar eins fljótt og auðið er og að hámarki á 20 árum.

5.       Framsal aflamarks í núgildandi aflamarkskerfi verði einungis miðað við brýnustu þarfir.

6.       Auðlindasjóður bjóði aflaheimildir til leigu. Greiðslum fyrir aflaheimildir verði dreift á það ár sem þær eru nýttar á. Framsal slíkra aflaheimilda er bannað. Útgerðum verði gert skylt að skila þeim heimildum til Auðlindasjóðs sem þær ekki nýta.

7.       Frjálsar handfæraveiðar verði heimilaðar ákveðinn tíma á ári hverju. Sókn verði m.a. stýrt með aflagjaldi sem lagt verði á landaðan afla.

8.       Stefnt verði að því að allur fiskur verði seldur á markaði.

Jafnframt er því eindregið beint til stjórnvalda að þau hlutist til um að þar til ný stefna taki gildi ráðstafi fjármálastofnanir á vegum ríkisins ekki aflaheimildum án þess að setja skýra fyrirvara um endurskoðun slíkra samninga til samræmis við þá stefnu sem að framan er lýst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir