Lífseigur vísnaþáttur - 700 þættir í 30 ár
Þau skemmtilegu, og ekki síst merkilegu tímamót eru skráð á spjöld sögunnar í Feyki vikunnar þar sem sjöhundraðasti vísnaþátturinn lítur dagsins ljós. Fyrsti þátturinn birtist í Feyki 1. apríl 1987 og fögnuðum við því 30 ára úthaldi sl. vor.
Sá er haldið hefur utan um þáttinn frá upphafi er Guðmundur Valtýsson, bóndi á Eiríksstöðum í Svartárdal. Sagði hann, á 30 ára tímamótunum, að yfirleitt hafi verkefnið verið honum til gleði, þrátt fyrir að stundum hafi staðið á tæpasta vaði með að skila inn efninu á réttum tíma.
Feykir nýtti tækifærið, þegar Guðmundur kom með 700. þáttinn, og leysti hann út með smá gjöf í þakklætisskyni fyrir þann dugnað og eljusemi sem hann hefur sýnt með því að setja saman þátt aðra hverja viku fyrir blaðið. Vonum við að þátturinn eigi eftir að lifa lengi enn.
Í Vísnaþættinum segir Guðmundur frá því er Alþingi kom saman í haust og fjármálaráðherra flutti sína fjárlagaræðu, að þá hafi Helgi R. Einarsson ort svo:
Fjármála – Bensi hinn bratti
er býsna klókur í snatti.
Málunum bjargað
ef búfénu´ er fargað
og bætt við svo örlitlum skatti.
Stuttu síðar þegar allt sprakk í loft upp, orti Helgi:
Brákaður brast núna strengur
því björt er ei framtíðin lengur.
Það Bjarna og Benna
er báðum að kenna
segir ljúfur og ljóshærður drengur.
Þegar svo fréttir bárust af stofnun nýs flokks, varð þessi til hjá Helga:
Undir uggum skal fornvinum ylja
kjarnann eina frá hisminu skilja.
Stíga á stokk
og stofna nú flokk
með staðfastan framsóknarvilja.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.