Lilja Rafney vill ræða erfiða stöðu sauðfjárbænda
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í Norðvesturkjördæmi, hefur farið þess á leit við formann atvinnuveganefndar að boðað verði til fundar í nefndinni við fyrsta tækifæri til að ræða erfiða stöðu sauðfjárbænda sem til er komin vegna yfirlýsinga um lækkun afurðaverðs til þeirra nú í haust.
Óskað er eftir því að á dagskrá fundarins verði umfjöllun um þau áhrif sem líklegt er að verðlækkun á sauðfjárafurðum hafi á afkomu sauðfjárbænda og byggð í sveitum landsins, viðbrögð stjórnvalda við stöðunni og tillögur þeirra til lausnar málsins. Þess er óskað að landbúnaðarráðherra verði boðaður til fundarins og enn fremur fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa.
Fram hefur komið að útlit er fyrir stórfellda lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda nú í haust. Formaður Landssambands sauðfjárbænda hefur greint frá því að margir bændur standi frammi fyrir fjárhagslegum erfiðleikum af þessum sökum og líklegt sé að margir úr hópi yngri sauðfjárbænda sjái sér ekki fært að halda áfram búskap að óbreyttu. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni og mun ótvírætt verða til að veikja sauðfjárbúskapinn og afurðavinnsluna til langs tíma og hafa óheillavænleg áhrif á byggð í sveitum landsins.
Mikill samdráttur í útflutningi á sauðfjárafurðum og slæmar horfur á þeim vettvangi valda mestu um það hvernig komið er. Þar ráða aðstæður sem sauðfjárbændur hafa alls engin áhrif á, svo sem hátt gengi krónunnar, bann við sölu sauðfjárafurða til Rússlands og ýmsar óhagstæðar breytingar á helstu mörkuðum fyrir lambakjöt frá Íslandi. Um þriðjungur þess lambakjöts sem framleitt hefur verið hérlendis undanfarin ár hefur farið á erlenda markaði og er því áfallið verulegt fyrir starfsgreinina ef raunin verður sú að alveg tekur fyrir þennan útflutning.
/Fréttatilkynning