Litið við hjá ferðaþjónustuaðilum - Gisting og góðar veitingar við þjóðveginn

Veitingastaðurinn er á neðri hæð hússins sem stendur við þjóðveg 1. Myndir:FE
Veitingastaðurinn er á neðri hæð hússins sem stendur við þjóðveg 1. Myndir:FE

Í Víðigerði við þjóðveg 1 í Víðidal hefur um langan tíma verið rekin veitingasala. Fyrir fjórum árum festu núverandi eigendur kaup á staðnum og síðan þá hafa umtalsverðar breytingar orðið á staðnum. Feykir hitti mæðginin Kristin Bjarnason og Guðlaugu Jónsdóttur að máli og fékk þau til að segja sér frá rekstrinum og þeim framkvæmdum sem þau hafa staðið í undanfarin ár.

Matsalur veitingastaðarins, laus við íburð en notalegur.

Staðurinn ber í dag nafnið North West Hotel & Restaurant. Guðlaug og maður hennar Hallgrímur Hallgrímsson ásamt Kristni og konu hans, Rakel Maríu Eggertsdóttur, festu eins og áður segir kaup á húsnæðinu árið 2014 en áður höfðu þau annast reksturinn eitt sumar. Þau hófust strax handa við framkvæmdir og standsettu hótel á efri hæðinni með níu tveggja manna herbergjum. Að sögn Kristins var allt viðhald komið á tíma og strax var ráðist í nauðsynlegar endurbætur á eldhúsinu og síðan hefur verið unnið að miklum endurbótum innanhúss, s.s. við rafmagns og vatnslagnir og margt fleira. Núorðið eru þau farin að ráða fólk í vinnu en fyrsta árið voru það aðeins þau fjögur sem gerðu allt sem gera þurfti. „Fyrstu tvö árin voru rosalega erfið, það var alltaf að koma eitthvað nýtt og nýtt upp á en nú erum við komin með hausinn upp úr vatninu,“ segir Kristinn. Á þessum tíma hafa áherslurnar í veitingasölunni einnig tekið talsverðum breytingum, frá því að vera dæmigerð vegasjoppa með einföldum réttum til 

Eigendurnir, Hallgrímur, Guðlaug, Rakel og Kristinn.þess að verða alvöru veitngastaður og gististaður. „Við höfum lagt mikinn metnað í matseðilinn svo nú er staðurinn orðinn meira aðlaðandi fyrir þá sem vilja koma og setjast niður og fara út að borða góðan mat á leiðinni milli staða,*“ segir Kristinn. Aðspurð um vinsælustu réttina segja þau Kristinn og Guðlaug hamborgara og súpur alltaf vera vinsæla rétti en einnig séugrillaðar kótilettur mjög vinsæll réttur.
 

                                                               Stefnt á frekari endurbætur

Setustofan á hótelinu er björt og vistleg og búin fallegum húsgögnum

Á hótelinu á efri hæð hússins eru eins og áður segir níu tveggja manna herbergi með baðherbergi þar sem boðið er upp á gistingu í uppbúnum rúmum. Einnig er sameiginleg setustofa á hæðinni og er aðstaðan öll hin vistlegasta. Mjög góð nýting er á gistingunni yfir sumarmánuðina og segja þau Guðlaug og Kristinn að meirihluti næturgesta séu erlendir ferðamenn. Hins vegar sé meira um íslenska matargesti og hafi þeim farið fjölgandi ár frá ári. Má það væntanlega þakka því að orðspor staðarins hefur spurst út því litlu fjármagni hefur verið varið í auglýsingar þar til nú á þessu ári.

Opið er í Víðigerði frá klukkan 10 – 22 alla daga vikunnar en boðið er upp á morgunverðarhlaðborð fyrir næturgesti frá klukkan 7:30. Lokað er yfir háveturinn en opnunartíminn hefur verið að lengjast ár frá ári. Þetta árið var opnað 1. apríl og verður opið til 1. nóvember og er ætlunin að lengja tímann á næsta ári. „Túristatímabilið hefur verið að lengjast fram á haustið og við erum að eignast stærri hóp af íslenskum viðskiptavinum. Vonandi endar þetta bara með því að við þurfum ekkert að loka þó að háveturinn sé nú ansi erfiður,“ segir Kristinn en bætir því við að kosturinn við að loka svona stað yfir einhvern tíma ársins sé að þá gefist færi á að endurskoða hlutina, hvað gangi ekki og hvað þurfi að bæta þannig að alltaf sé opnað að vori með einhverjar nýjar áherslur. „Svo er bara að halda áfram, hvort sem það er að bæta við gistinguna eða stækka veitingasalinn, það fer alveg að koma tími á það. Þannig að hægt og rólega er þetta alltaf að verða betra og betra, það tekur bara tíma að rífa svona stað upp,“ segir Kristinn að lokum.

Þess má að lokum geta að staðurinn fékk viðurkenningu frá Trip Advisor á síðasta ári.

Herbergin eru snyrtileg og öll með baðherbergi.

 

Áður birt í 24. tbl Feykis 2018.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir