Loftslagsráðherrann og sveitarfélögin á Norðurlandi vestra | Sigurjón Þórðarson skrifar

Sigurjón Þórðarson. MYND AF NETINU
Sigurjón Þórðarson. MYND AF NETINU

Núverandi umhverfisráðherra fer með himinskautum í endurskipulagi stofnana ráðuneytisins, þar sem rauði þráðurinn er að sjónarmið Samtaka atvinnulífsins ráði ferðinni í einu og öllu.

Guðlaugur Þór hefur boðað ríkisvæðingu heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga en það mun m.a. leiða af sér að tveir ríkisstarfsmenn munu m.a. sinna eftirliti í Safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju og Tindastólstjaldinu þ.e. annars vegar frá MAST og hins vegar frá UST, í stað þess að starfsmaður sveitarfélagsins heimsæki staðina. Mögulega mun nýtt skipulag verða skilvirkara enda verða "áhættumetnir eftirlitsþættir" Safnaðarheimilis Sauðárkróks færðir inn í nýjan samræmdan eftirlitsgrunn, sem á að vísu eftir að gera og græja.

Önnur verkefni umhverfisráðuneytisins sem snúa að sveitarfélögunum á svæðinu hafa því miður verið látin sitja á hakanum m.a. þau sem snúa að:

a) fráveitum, en gildandi reglugerð sem sett var á síðustu öld, er barn síns tíma. Það undarlegasta við dráttinn á að gefa út nýjar leiðbeiningar til sveitarfélaganna í formi reglugerðar er að það liggja nú þegar fyrir fullbúin drög sem eru mun betri en gildandi reglugerð. Þau eru vissulega ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk.

b) förgun dýraleifa (áhættuvefja) og þá sérstaklega förgun á riðufé m.a. þáttum sem snúa að úrræðum þegar brennslan Kalka er óvirk vegna viðhalds. Sömuleiðis má bæta alla upplýsingagjöf vegna riðumála til íbúa og sveitarfélaga.

c) lagfæringum á stórgallaðri skráningarreglugerð sem átti að bæta aðgengi að stjórnsýslunni, en meingölluð reglugerðin hefur snúist upp í andhverfu sína.

d) bráðnauðsynlegum erindum er ekki svarað sem snúa að förgun á jarðvegi úr sand- og olíuskiljum, með þeim afleiðingum að mengunarvarnarbúnaður verður óvirkur. Fyrirtæki á Norðurlandi vestra hafa ítrekað bent á að skiljur séu orðnar stútfullar og ekki er hægt að losa þær þar sem enginn farvegur er fyrir jarðveginn.

í sjálfu sér er það hið besta mál að loftslagsráðherrann leggi sig fram við að bjarga loftslagi heimsins, en það er ekki gott ef það verður til þess öll verkefni sem snúa að sveitarfélögum á Norðurlandi vestra gleymast.

Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir