Lögreglan á Norðurlandi leitar enn að erlendum ferðamanni
Lögreglan á Norðurlandi vestra fékk í gær tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir í Lýtingstaðarhreppi sem svipaði til atvikalýsingar þeirra innbrota sem átt hafa sér stað í Lýtingsstaðarhreppi og á Hofsósi síðustu daga. Frá þessu segir á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Var allt útkallslið lögreglu sent á staðinn en í ljós kom að málið átti sér eðlilegar skýringar.
Eins og áður hefur komið fram hefur lögreglan fengið nokkrar tilkynningar undanfarna daga um að maður hafi bankað upp á og sagst vera í leit að gistingu og í nokkrum tilfellum hefur vikomandi farið óboðinn inn á heimili fólks. Sambærilegar tilkynningar hafa borist lögreglu á Suðurlandi og Austurlandi.
Því vill lögreglan beina því til íbúa svæðisins að fylgjast með sínu nærumhverfi og tilkynna til lögreglu í síma 112 ef vart verður við eitthvað óeðlilegt. Einnig vill lögregla beina þeim tilmælum til fólks að æskilegt sé að læsa húsum þegar þau eru yfirgefin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.