„Loksins komnir með þjálfara sem mun koma okkur á beinu brautina“ :: Liðið mitt Elvar Örn Birgisson

Það fer ekki á milli mála hvaða lið er í uppáhaldi á Ríp 2. Aðsend mynd.
Það fer ekki á milli mála hvaða lið er í uppáhaldi á Ríp 2. Aðsend mynd.

Elvar Örn Birgisson, bóndi og veiðimaður á Ríp 2 í Hegranesi, er mikill áhugamaður um íþróttir og heldur með Manchester United í Ensku úrvalsdeildinni. Hann er í sambúð með Elínu Petru Gunnarsdóttur og saman eiga þau þrjú börn. „Það er mikill fótboltaáhugi í fjölskyldunni og nánast allir styðja Man. Utd. þannig það var ekkert annað sem var boðið upp á í uppeldinu og þannig mun uppeldið á mínum börnum vera,“ segir hann aðspurður um uppáhalds liðið. Elvar Örn svarar hér spurningum í Liðinu mínu í Feyki.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég fór mjög hógvær inn í þetta tímabil og vonaðist fyrst og fremst eftir því að fá að sjá skemmtilegan fótbolta hjá liðinu. En að komast í meistaradeildina er krafa sem maður setur á liðið á hverju ári.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Já, ég er sáttur. Maður var mjög efins í byrjun en það eru batamerki á spilamennsku liðsins með nýjum þjálfara og ég held að það séu bjartari tímar framundan, góður möguleiki á top 4 þetta tímabilið og hægt að byggja að því.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já, annað er líklega óhjákvæmilegt en allt hefur það verið á léttari nótunum og mest í hita leiksins. Mest hafa þetta samt verið deilur við stuðningsmenn Liverpool, af hverju veit ég ekki en þannig er það.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? Wayne Rooney, maður fékk að fylgja honum frá upphafi til enda hjá klúbbnum, leikmaður sem skilaði alltaf sínu og rúmlega það.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei, því miður en það hefur staðið til síðustu ár en aldrei látið vaða. Þetta er að verða númer eitt á „to do“ listanum þannig það styttist í þetta.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já, þeir eru mjög margir. Maður er alltaf að kaupa eitthvað sem tengist klúbbnum og svo er ég í stuðningsmannaklúbbnum á Íslandi þannig að maður fær reglulega sendingar með alls konar hlutum líka.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Mjög vel, hér eru allir harðir stuðningsmenn liðsins.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, það hefur aldrei komið til greina.

Uppáhalds málsháttur? -Allt er gott sem endar vel.

Einhver góð saga úr boltanum? -Ekki beint saga en minningar sem standa upp úr eru ævintýrin sem maður fékk að upplifa í meistaradeildinni. Fyrsta minningin mín af liðinu er úrslitaleikurinn ´99. Við bræðurnir vorum að horfa á leikinn saman á Ríp og þetta virtist vera að fjara út en þá koma þessi ótrúlega endurkoma og leikurinn vannst á síðustu mínútum leiksins. Síðan var það úrslitaleikurinn ´08 þegar við unnum Chelsea í vítaspyrnukeppni, Terry gat unnið meistaradeildarbikarinn fyrir Chelsea en rann í síðustu vítaspyrnu þeirra sem endaði svo með sigri minna manna. Það er óhætt að segja að maður hafi verið heppinn að fá að alast upp við svona sigursæl ár hjá sínu félagi í öllum keppnum og maður vonar að það komi aftur sá tími þar sem barist er um alla titla.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Nei, ekkert sem ég man.

Spurning frá Ragnari Þór: -Ertu bjartsýnn á það að Man. United sé komið með stjóra sem mun vera lengur en eitt til tvö tímabil eins og hefur verið síðustu ár?

Svar: -Síðustu níu ár hafa veið mjög brösug hvað þjálfara varðar en mín skoðun er að við séum loksins komnir með þjálfara sem mun koma okkur á beinu brautina. Það gæti tekið smá tíma og kostað mannabreytingar á hópnum að koma hans stíl í gegn en þolinmæðin gæti skilað sér í þetta skiptið.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Hilmar Þór Ívarsson.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Nær Leeds að stimpla sig inn sem staðbundið úrvalsdeildarfélag eða verður þetta endalaus botnbarátta og flakk á milli deilda næstu árin?

Áður birst í 48.tbl. Feykis 2022 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir