Maður ársins á Norðurlandi vestra 2017 - Kosning hafin

Ingimar Pálsson - Maður ársins á Norðurlandi vestra 2016.
Ingimar Pálsson - Maður ársins á Norðurlandi vestra 2016.

Eins og undanfarin ár stendur Feykir fyrir kjöri á manni ársins. Gefst íbúum á svæðinu og öðrum lesendum Feykis kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum. Í þetta skiptið bárust fimm tilnefningar.
Hægt verður að greiða atkvæði á vefnum Feyki.is eða senda atkvæði í pósti á Feykir, Borgarflöt 1, 550 Sauðárkróki. Kosningin er þegar hafin og lýkur henni kl. 12 á hádegi á nýársdag, 1. janúar

 

 

Aldís Olga Jóhannesdóttir Aldís Olga Jóhannesdóttir - Hvammstanga

Aldís Olga er tilnefnd fyrir framlag sitt til menningarmála til samfélagsins í Húnaþingi vestra. Hún hélt úti farsælum vefmiðli, Norðanátt.is, um tíu ára skeið. Auk þess að vera í stjórn Menningarfélags Húnaþings vestra - sem hlúir að og styður við hvers kyns menningarstarfsemi í Húnaþingi vestra - hefur hún tekið virkan þátt í skipulagningu og uppsetningu fjölmargra menningarviðburða í gegnum árin. Hún er því vel að titlinum „Maður ársins 2017“ kominn fyrir ómetanlegt framlag hennar til menningarmála og ímyndarsköpun Húnaþings vestra og fyrir að auðga samfélagið, segir í tilnefningunni.

 

Ingvi Hrannar Ómarsson  Ingvi Hrannar Ómarsson - Sauðárkróki

Ingvi Hrannar er kennsluráðgjafi í upplýsingatækni og skólaþróun í Sveitarfélaginu Skagafirði og Árskóla á Sauðárkróki. Hann er einn eftirsóttasti fyrirlesari landsins á sviði upplýsingatækni og í haust hlaut hann viðurkenningu á því sviði frá tölvurisunum Google og Apple. Er hann fyrstur Íslendinga til að hljóta slíkan heiður. Íslendingar eiga í framtíðinni eftir að njóta brautryðjandastarfs Ingva Hrannars, segir í tilnefningu hans.

 

Jóhanna E. Pálmadóttir Jóhanna E. Pálmadóttir - Akri, A-Hún

Jóhanna er framkvæmdastjóri Textílsetursins á Blönduósi. Hún fær tilnefningu fyrir dugmikið starf í þágu menningar og lista í Austur-Húnavatnssýslu. M.a. hlaut Prjónagleðin, sem hún á stóran þátt í að koma á laggirnar,  þann heiður að vera valin sem eitt af verkefnum Afmælisnefndar vegna 100 ára fullveldis Íslands árið 2018. Jóhanna er frábær leiðtogi og dugmikil til allra verka, segir í tilnefningu hennar.

 

Pálmi Ragnarsson  Pálmi Ragnarsson - Garðakoti, Skagafirði

Þó tilefnið sé á alvarlegu nótunum þá fékk Pálmi tilnefningu til manns ársins vegna jákvæðni sinnar við baráttu hans við krabbamein undanfarin ár. Hann heldur lífsgleðinni og kraftinum hvernig sem allt er. Það er það sem ég dáist að og við ættum að hafa til fyrirmyndar, segir í tilnefningu Pálma.

 

Sigurður Líndal Þórisson og Greta Clough Sigurður Líndal Þórisson og Greta Clough - Hvammstanga

Hjónin Sigurður Líndal Þórisson og Greta Clough á Hvammstanga fengu saman tilnefningu og getur Feykir ekki sett sig upp á móti því og hvað þá að stilla þeim upp móti hvort öðru. Þeirra tilnefning er vegna framlags þeirra til menningar og atvinnulífs í Húnaþingi vestra. Sigurður hefur sett upp leiksýningar á svæðinu og það nýjasta Hér um bil Húnaþing sem frumsýnt var í síðustu viku. Hann hefur einnig haft frumkvæði sem formaður Ferðamálafélags Húnaþings vestra og eflt starf Selasetursins.

Greta hefur sett á stofn Handbendi brúðuleikhús og ferðast með sýningar víða t.d. sýninguna tröll auk þess að vera virk í öðru menningarlífi. Mikið happ fyrir Húnaþing vestra að fá þau hingað í samfélagið og reyndar fyrir allt Norðurland vestra, segir í tilnefningunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir