Ást er allt / ARNAR BJÖRNS

Arnar þeytir skífum á Hofsós heim. MYND AÐSEND
Arnar þeytir skífum á Hofsós heim. MYND AÐSEND

Landsliðsmaðurinn, Stóllinn og skemmtanastjórinn Sigtryggur Arnar Björnsson, fæddur árið 1993, varð í maí síðastliðnum Íslandsmeistari í körfu með liði Tindastóls. Titlinum var fagnað vel og lengi. Nú á dögunum steig Arnar síðan pínu dans utan þægindarammans en þá stökk kappinn í gervi skífuþeytis (DJ) á bæjarhátíðinni Hofsós heim.

Arnar er Skagfirðingur í húð og hár, foreldrar hans eru Varmhlíðingurinn Bjössi Sigtryggs og mamman Króksarinn Guðrún Sigmars. Hann er að mestu uppalinn í Kópavogi og í Halidfax í Kanada. „En ég átti líka heima á Sauðárkróki, Ólafsvík og í Árbænum,“ segir Arnar. Hann segist því miður aldrei hafa reynt að læra á hljóðfæri en hefði valið trommur ef hann hefði æft sig eitthvað. Spurður út í reynslu af skífuþeytingum segir hann: „Ég er ekki beint hokinn af reynslu heldur byrjaði ég bara að æfa mig þegar ég ákvað að taka að mér gigg á hátíðinni Hofsós heim. Sé sko aldeilis ekki eftir því!“

Hann bætir við að vonandi dúkki upp fleiri DJ gigg svo hann hafi eitthvað að gera í sumar, annars séu bara landsliðsæfingar og samvera með fjölskyldunni framundan. En einhendum okkur í spurningarnar...

Hvaða lag varstu að hlusta á? Akkúrat núna er ég að hlusta á lagið Ramenez la couple á la maison.

Uppáhalds tónlistartímabil? Tímabilið 2000s-10s, fíla hiphopið og R&B sem ég ólst upp við. Einnig er ég hrifinn af klassísku 80's rokki.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Þessa dagana er reggaeton að fanga athygli mína þar sem ég var að koma heim frá Spáni. Þar náði ég að pikka upp nokkur góð lög á ferðalaginu.

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? Heart on My Sleeve er lag sem er skapað algjörlega af gervigreind. Það eru teknar raddir frá tónlistarmönnunum Drake og The Weekend og búið til lag sem er afar grípandi. Tónlistarmennirnir koma ekkert nálægt laginu en það er ómögulegt að taka eftir þvíi.

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið?Sönghæfileikar mínir eru afar takmarkaðir en ég myndi vilja taka Týndu kynslóðina með Bjartmari Guðlaugssyni. Ég frétti að hann væri líka bókaður á Hofsós hem.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ég man að það var mikið hlustað á U2, Red Hot Chili Peppers og Sálina. Síðan vorum við bræðurnir að blasta rapp tónlist.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það mun hafa verið Get Rich or Die Trying með 50 Cent.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég var með Walkman geislaspilara með höggvörn.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? In da Club með 50 Cent situr í minninu.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Það eru fá lög sem pirra mig það mikið en Party Rock með LMFAO og Moves Like Jagger með Maroon 5 eru dæmi um tvö helvíti leiðinleg lög.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? One More Time með Daft Punk.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég myndi líklega henda á Vultures með John Mayer. Það er þægilegur taktur og hann er með seiðandi rödd.

Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? All You Need is Love er alltaf gott þar sem boðskapurinn er fallegur og mjög einfaldur. Ást er allt.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi fara til Miami á tónleikahátíðina Rooling Lout og myndi að sjálfsögðu bjóða Bjarneyju konunni minni með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Það var mikið um Drake, The Weeknd, Lil Wayne og T-Pain. Þeir voru sjóðandi heitir á þeim tíma.

Var eittthvert lag sem var lag úrslitakeppninnar eða sigurvegaranna? Það voru bara stuðningsmannalögin sjálf sem komu mér í gírinn í úrslitakeppninni. Mætti stundum með heyrnatól en tók þau fljótt úr til að hlusta á stuðningsfólkið syngja.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Ég verð að segja Drake. Heyrði hann fyrst þegar ég var í Junior High og hef verið að hlusta á hann síðan. Hann er líka ennþá einn vinsælasti tónlistarmaður í heimi í dag.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Take Care með Drake er mín uppáhalds. En ég hafði líka mjög gaman af því að hlusta á Appetite for Destruction með Guns N’ Roses í bílnum með pabba.

Hvað er go-to lagið hjá skífuþeytaranum? Það er erfitt að velja eitt, en ég ætla bara að halda mig við One More Time. Hörku gott og ódauðlegt lag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir