Mætum á kjörstað – Leiðari Feykis

Það er engu líkara en almættið hafi ákveðið að senda skýr skilaboð til Skagfirðinga um að muna eftir að kjósa næstu helgi, þegar risstór kross var merktur á norðurhimininn. Myndin er tekin sl. sunnudag á Höfðaströndinni. Mynd: Fríða Eyjólfsdóttir.
Það er engu líkara en almættið hafi ákveðið að senda skýr skilaboð til Skagfirðinga um að muna eftir að kjósa næstu helgi, þegar risstór kross var merktur á norðurhimininn. Myndin er tekin sl. sunnudag á Höfðaströndinni. Mynd: Fríða Eyjólfsdóttir.

Það fer líklega framhjá fáum þessa dagana að sameiningarkosningar eru framundan hjá íbúum Skagafjarðar og hluta Austur-Húnavatnssýslu. Þessar kosningar varða miklu um framtíð sveitarfélaganna Húnavatnshrepps og Blönduóss annars vegar og Skagafjarðar og Akrahrepps hins vegar, og í raun hvort sameiningar fari fram með vilja íbúanna næsta laugardag eða með lögþvinguðum aðgerðum síðar meir eins og búið er að boða af ríkisvaldinu.

Í júní á síðasta ári samþykkti Alþingi stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar sem m.a. er stefnt að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1.000 manns. Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Stjórnarráðsins er markmiðið að styrkja umgjörð og grundvöll sveitarstjórnarstigsins og tryggja að sveitarfélög geti sinnt lögbundinni skyldu sinni.

„Við höfum nú náð samstöðu um að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 1.000 manns. Það er nú í höndum sveitarfélaga hvernig þau geti best náð því markmiði og hafi styrk til að sinna lögbundinni grunnþjónustu. Sveitarfélög hafa sýnt frumkvæði og víða um land er sameiningum ýmist lokið eða þær verið samþykktar. Annars staðar eru viðræður í gangi. Það er eftirsóknarvert að við fáum færri og sterkari sveitarfélög en fjárhagslegur ávinningur samfélagsins af því er ómetanlegur. Með stuðningi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hefur einnig verið greitt verulega fyrir sameiningum,“ segir Sigurður Ingi á heimasíðu Stjórnarráðsins.

Það er sem sagt nokkuð ljóst að fámenn sveitarfélög eiga ekki neina framtíð fyrir sér ein og sér þó vilji íbúanna sé allur í þá átt nema eitthvað breytist á ríkisstjórnarheimilinu.

Ég hef verið efins um það hvort ég ætti yfir höfuð að upplýsa hvort og þá hvernig ég ætli að kjósa næsta laugardag enda mitt einkamál en sé svo sem ekki ástæðu heldur til að halda því leyndu. Þegar kosið var um sameiningu Akrahrepps og Skagafjarðar árið 2005 greiddi ég atkvæði gegn henni. Mér fannst umræðan hávær á þá leið að Sveitarfélagið Skagafjörður ætlaði að gleypa stórhuga bændur með húð og hári og engu líkara en á Sauðárkróki byggju helst hræætur og hælbítar. Ég gat ekki hugsað mér að samþykkja slíkar sameiningar.

Nú eru aðstæður hins vegar allt aðrar og ég hef hugsað mér að samþykkja sameiningu. Ekki til þess að gleypa lítið sveitarfélag heldur til þess að standa ekki í vegi fyrir því ef íbúar Akrahrepps kjósa að sameinast. Svo má líka á það benda að annað sveitarfélagið er ekki endilega að innlima hitt heldur verður til nýtt sveitarfélag sem allir íbúar héraðsins geta haft áhrif á með þátttöku sinni í sveitarstjórnarmálum og nefndasetu. Þetta á einnig við um Austur-Húnavatnssýslu.

Ég ætla ekki að segja fólki hvað það eigi að kjósa en mér finnst ástæða til að hvetja fólk til að mæta á kjörstað og kjósa.

Góðar stundir!
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir