Mannlíf í torfbæjum á 19. öld :: 70 ár frá opnun sýningar í Glaumbæ

Mynd tekin 1959. Gunnar Rúnar Ólafsson tók. Myndir fengnar af Facebook-síðu Byggðasafns Skagfirðinga.
Mynd tekin 1959. Gunnar Rúnar Ólafsson tók. Myndir fengnar af Facebook-síðu Byggðasafns Skagfirðinga.

Þann 15. júní sl. var merkur dagur í sögu Byggðasafns Skagfirðinga, en fyrir 70 árum síðan, eða árið 1952, opnaði megin sýning Byggðasafnsins „Mannlíf í torfbæjum á 19. öld“ í Glaumbæ. Á sýningunni í bænum má sjá yfir 800 gripi, í 16 mismunandi rýmum, og er áhersla lögð á aðbúnað fólks við matargerð og daglegt líf.

Á Facebook-síðu safnsins er aðdragandi þess að sýningin varð til rifjaður upp. Á sínum tíma var mikill vilji fyrir því að lagfæra og varðveita Glaumbæ þó ekki væri nægilegt fjármagn til þess verkefnis. Árið 1938 mun Mark Watson hafa hrifist af Glaumbæ og veitt 200 sterlingspund til viðgerða á bænum. „Þá var hægt að hefjast handa við lagfæringar sem stóðu yfir til ársins 1946 en síðustu ábúendur fluttu út ári síðar. Byggðasafn Skagfirðinga var stofnað þann 29. maí 1948 (elsta byggðasafn á Íslandi) og sama ár var tekið til við að safna munum í bæinn. Árið 1951 voru þeir munir sem safnast höfðu fluttir inn í Glaumbæ og ári síðar opnaði loks sýningin sem enn stendur í dag, með mörgum af þeim sömu munum og voru þá og að miklu leyti í sömu mynd.

Síðan þá hefur safnið vaxið og dafnað og sýningin dregið að sér hundraða þúsundir manna og virðist ekkert lát á áhuganum á sýningunni enda er sýningin sjálf raunar orðin mjög merkileg og varðveisluverð fyrir aldurssakir. Til gamans má geta að margir safngestir hafa haft orð á því hvað sýningin hafi snortið þá og sumir jafnvel tilkynnt safnvörðum að þessi bær og sýningin í honum sé það fallegasta sem þeir hafi séð um ævina. Það er því óhætt að segja að sýningin „Mannlíf í torfbæjum á 19. öld“ standi fyrir sínu,“ segir í færslu Byggðasafnsins.

Spennandi sýningar Byggðasafnsins

Síðastliðinn sunnudag opnaði ný sýning í Áshúsi „Íslenskir þjóðbúningar og Pilsaþytur“, samstarfsverkefni Byggðasafnsins og Pilsaþyts, þar sem fróðleikur, búningahlutar og skart verða til sýnis ásamt kyrtli Pilsaþyts sem vígður var í Miðgarði þann 22. apríl síðastliðinn. Þar var einnig afhjúpaður sýningaskápur sem geyma mun fimm glæsilega þjóðbúninga og verða til sýnis.

Í Gilsstofunni opnaði sýningin „Torfbærinn: Heimili og vinnustaður“ frá Skottu kvikmyndafjelagi sem unnin var í samstarfi við Byggðasafnið. Þar verður hægt að ferðast aftur í tímann með 360° gleraugum.

Þá má skoða spjaldasýninguna „Villtar erfðalindir nytjaplantna“ sem fjallar um villtar plöntur náskyldum landbúnaðarplöntum og möguleikunum sem felast í þeim, sérstaklega í sambandi við loftslagsvána, líffræðilegan erfðafjölbreytileika og fæðuöryggi. Sýningin er sett upp í samstarfi við Náttúrustofu Norðurlands vestra og er fengin að láni frá Grasagarðinum í Reykjavík og stendur í Glaumbæ út júní.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir