Mataruppskriftir sem gera gott laugardagskvöld enn betra!

Matgæðingar í tbl 38 árið 2020 eru þau Viktor Guðmundsson og Ragna Fanney Gunnarsdóttir. Þau eru búsett á Sauðárkróki og eiga þrjú börn. Viktor er matreiðslumaður á Málmey Sk 1 og sér einnig um eldamennskuna þegar hann er í landi. Ragna er leik- og grunnskólakennari og vinnur í Árskóla. Hún hefur meira gaman af því að gera eftirréttina og sósurnar og reynir að komast af með sem minnsta eldamennsku þegar Viktor er á sjónum. 

Grafið ærfille

Þau eru mikið forrétta fólk og er þessi ein af þeirra uppáhalds uppskriftum

Aðferð: Byrjað á að hylja kjötið yfir og undir með grófu salti í u.þ.b. tvo tíma, síðan er saltið skolað af og kjötið þerrað. Næst er kryddblöndunni stráð yfir og undir kjötið, ekki spara kryddið. Látið liggja í kryddblöndunni í u.þ.b. þrjá daga í kæli (fer eftir stærð á kjöti).

Kryddblanda, ætti að duga á 4 fille, sirka:

3 msk. dill

2 msk. sykur

1 tsk. hvítur pipar

1 msk. sinnepsfræ

1 msk. rósapipar

1 msk. öllum þessum kryddum (Basilika, timian, estragon. oregano,steinselja og rósmarín)

Sósa:

150 ml mæjó

40 g sýrður rjómi.

40 g sætt sinnep.

20 g hunang.

1 tsk. dill

Öllu hrært saman.

Borið fram með ristuðu brauði.

 

Sjúllaður Kjúlli

Þessi kjúklingaréttur er einfaldur og er í miklu uppáhaldi

Þetta er stór uppskrift það má alveg helminga hana

2 kjúklingar (bútað í u.þ.b. átta bita hvor kjúklingur) eða bara nota alls konar tilbúna bita.

Aðferð:

Skref 1

Blanda saman

1/2 stór flaska af tómatsósu

1 1/2 msk. karrý

1 1/2 msk. salt

1/2 tsk. pipar

1/4 tsk. chilli pipar

Sósan borin á kjúklinginn og látin liggja á honum í lágmark þrjá tíma en má liggja á yfir nóttu.

Skref 2

Kjúllinn settur í ofn með marineringunni í 40 mín. á 180°C á blæstri, eiga að verða smá brúnaðir. Tekið úr ofninum og bitunum snúið við og hálfum lítra af rjóma hellt yfir og sett aftur í ofninn í u.þ.b. 15-20 mín. eða þar til bitarnir eru fallegir á litinn (smá brúnaðir). Gott er að hella vökvanum í pott og þykkja aðeins til að fá þykkari sósu og hella aftur yfir en alls ekki nauðsynlegt.

Meðlæti: ferskt salat með fetaosti, hvítlauksbrauð og hrísgrjón.

 

Buffaló marengsísterta - sirka 12 skammtar

Við gerum þessa ístertu svona spari og er það Ragga sem sér um að gera þessa.

Þetta er uppáhalds eftirrétturinn okkar:

1 stk. marengsbotn (myljið niður) má nota tilbúinn botn

5 stk. egg

4 msk. sykur

5 dl rjómi

200 g KEA vanillu skyr

2 kassar Buffaló bitar eða Rís buff

Aðferð:

Skref 1

Léttþeytið rjómann. Skiljið í sundur eggjahvítur og rauður. Þeytið saman rauður og tvær msk. af sykri.

Blandið varlega saman við léttþeyttan rjómann og vanillu skyrið. Saxið Buffaló bitana (eða Rís buff bitana) og blandið saman við ásamt ½ marengs.

Skref 2

Hreinsið hrærivélaskálina vel og þeytið því næst saman eggjahvíturnar og 2 msk. af sykri.

Hrærið eggjahvítunni varlega saman við rjómablönduna.

Setjið restina af marengsinum í botninn á forminu. Hellið blöndunni í formið og frystið. Við notum kökuform sem hægt er að losa hliðarnar frá. Hellið bræddu súkkulaði yfir tertuna áður en hún er borin fram eða myljið smá súkkulaði yfir hana.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir