Mikið byggt á Blönduósi :: Á fimmta þúsund fermetra í byggingu undir hverskonar iðnað

Feiknamikil bygging er að rísa á Miðholti á Blönduósi, ein þriggja undir iðnaðarhúsnæði sem þegar er í smíðum. Mynd: Valdimar Guðmannsson.
Feiknamikil bygging er að rísa á Miðholti á Blönduósi, ein þriggja undir iðnaðarhúsnæði sem þegar er í smíðum. Mynd: Valdimar Guðmannsson.

Á Miðholti blasir stór bygging við vegfarendum sem leið eiga um Blönduós en þar er verið að reisa 1800 fm hús fyrir verktaka og björgunarsveit. Mikið er í gangi í bænum því alls er verið að byggja ríflega 4000 fm iðnaðarhúsnæði í þrennu lagi.

Valdimar O. Hermannsson, bæjarstjóri, segir að þegar sé búið að selja öll bilin í byggingunni á Miðholti, sem séu misstór. Þarna verður blönduð starfsemi, nokkrir verktakar og björgunarsveitin. Valdimar segir að eftirspurnin hafi verið það mikil að þegar sé farið að huga að öðru húsi á sama svæði sem skipulagt er fyrir þjónustu og léttan iðnað.

Auk þessa húss er verið að byggja fyrsta hlutann af þremur fyrir framleiðslu líftæknifyrirtækisins Prótis sem nú er í eigu Vilko og Náttúrusmiðjunnar. Það sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski. Sá áfangi er um 440 fm en verður 1200 fm í heildina.

Á athafnasvæði gagnaversins er verið að byggja 1200 fm hús og til stendur að byggja annað eins á næsta ári. Þær byggingar eru 500 fm stærri en þau hús sem fyrir eru. Valdimar segir að rafmagnsskortur sé farinn að hamla frekari stækkun versins en til standi að funda með Landsvirkjun og Landsneti í næstu viku til að reyna að flýta því ferli. Vonir standi til að hægt verði að tengja beint við Blönduvirkjun. „Það er líka til að auka öryggið út af veðrum og slíku, að þurfa ekki að vera með dísilrafstöð við hliðina á svona umhverfisvænu gagnaveri. Það er verið að skoða hvort hægt sé að fara með þetta í jarðstreng alla leið uppeftir eða hvort það þurfi að vera sambland af jarðstreng og línu,“ segir Valdimar en hann telur að takmörk séu á að styrkja núverandi tengingar sem eru við gömlu Laxárvatnsvirkjun. „Til að auka öryggið eru óskir um að fá nýja tengingu við Blöndu,“ útskýrir hann.

Nýtt hverfi í undirbúningi
Síðustu tvö ár hafa 14 íbúðir verið í byggingu á Blönduósi, tvö fimm íbúða raðhús við Sunnubraut og Smárabraut og tvö parhús og hefur nú þegar verið flutt inn í annað þeirra. Þá segir Valdimar að verið sé að breyta stóru húsi í tvær íbúðir við Árbraut.

Meira er í pípunum hjá Blönduósbæ þar sem nýtt hverfi sem þegar er búið að deiliskipuleggja verður brátt frumsýnt en Valdimar tjáir blaðamanni að ekki verði byrjað á gatnagerð fyrr en fyrstu lóðirnar hafa selst.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir