Mikil blessun fylgdi Hólahátíð í ár

Hólahátíð fór fram um liðna helgi og var hún tileinkuð 500 ára afmæli Marteins Lúthers, með áherslu á siðbót í samtíð. Hátíðardagsskrá setti Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup í Auðunarstofu á föstudaginn en meðal dagsskráliða má nefna þátttökugjörninginn Tesur á Hólahátíð, sem fór fram alla helgina og Tón-leikhúsið á sunnudeginum. Þá lagði hópur fólks upp í Pílagrímsgöngu á laugardagsmorgni frá Gröf á Höfðaströnd, eftir Hallgrímsveginum að Hóladómkirkju.
Að sögn Solveigar Láru tókst Hólahátíð frábærlega vel í alla staði. Veðrið lék við gesti hátíðarinnar eins og oft áður. Hún segir tesuverkefnið hafa tekist vel: „Mun betur en við gátum ímyndað okkur. Það var stöðugt rennerí í Nýjabæ alla helgina og fólk fylltist mikilli lotningu við að koma hugmyndum sínum á prent með þessari gömlu aðferð. Það er skemmst frá því að segja að í lok hátíðarinnar töldum við 210 tesur á hurðinni í kirkjunni.“
Solveig segir að tesunar standi enn uppi og verða þar út mánuðinn svo fólk getur komið og séð þær og jafnvel bætt við þær þó það sé búið að fjarlægja gömlu prentsmiðjuna.
Kirkjan var fullsetin þegar tón-leikhúsið var sýnt og í prestsvígslunni þegar sr. Stefanía Guðlaug Steinsdóttir var vígð tilþjónustu í Lögmannshlíðarprestakalli. Einnig var full kirkja á samkomunni eftir kaffið þegar sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir hélt hátíðarræðu.
„Það var gríðarlega margt fólk sem kom að þessari Hólahátíð, myndlistarnemar, sem voru fjórir talsins, auk Guðrúnar Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal, sem sáu um allan undirbúning. Tón-leikhúsið flutti ReykjavíkBarokk, en þar voru tólf hljóðfæraleikarar, fjórir einsöngvarar og Steinunn Jóhannesdóttir leikkona. Listrænir stjórnendur voru Diljá Sigursveinsdóttir og Guðný Einarsdóttir.“
Pílagrímagangan eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum var farin á laugardeginum og er orðinn fastur liður á Hólahátíð, en að sögn Solveigar aldrei verið gengin í eins fallegu veðri og nú, undir heiðskírum himni, í logni og hlýju veðri.
„Þegar allt er talið upp má segja að mikil blessun hafi fylgt Hólahátíð í ár, en yfirskrift hennar var Siðbót í samtíð, þar sem við fögnum nú 500 ára afmælis siðbótar Marteins Lúthers,“ segir Solveig Lára.
Hér fyrir neðan má sjá myndskeið frá pílagrímsgöngunni, fengið af fésbókarsíðu kirkjunnar en þar er hægt að sjá fleiri myndbrot frá hátíðinni..