Mikil verðmæti í húfi

Fyrir skömmu bárust svör þriggja ráðherra við spurningum Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur alþingismanns VG í Norðvesturkjördæmi um sjávarrof, sjávarflóð og sjóvarnir. Sjávarrof hefur valdið landeyðingu víða um land og orði til þess að minjar um búsetu og lífsbaráttu genginna kynslóða eru horfnar eða í hættu og í sumum tilvikum á þetta einnig við um mannvirki sem nútímafólk hefur reist og notar.

               Umhverfis- og auðlindaráðherra greindi frá því í svari sínu að nú er unnið að því að greina áhrif líklegra loftslagsbreytinga á hæð sjávarborðs við Ísland og að endurmeta þurfi hættu á sjávarflóðum og rofi í ljósi þessa. Ýmis mannvirki, ný og gömul, geta orðið fyrir tjóni af völdum sjávarflóða og er því mikilvægt að hættan sem af þeim getur stafað verði metin og greind.
               Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra greindir því að nokkrum sjóvarnarverkefnum sem eru á gildandi samgönguáætlun er ólokið sökum þess að ekki hafa fengist fjárveitingar til þeirra. Ekki má við svo búið standa enda geta verið mikil verðmæti í húfi.
               Á síðastliðnum fjórum árum voru gerðar sjóvarnir á fimm stöðum í því skyni að verja menningarminjar fyrir sjávarrofi. Svar mennta- og menningarmálaráðherra sýnir að betur þarf að gera því vitað er um fjölda minjastaða sem liggja undir skemmdum vegna ágangs sjávar eða eru í fyrirsjáanlegri hættu. Í svari ráðherra kemur einnig fram að ætla megi að fyrir um 330 millj. kr. mætti ljúka skráningu fornleifa á ströndum landsins og tryggja þannig að vitneskja um sögu og menningu landsmanna varðveitist enda þótt minjarnar kunni að fara forgörðum. Með skráningarstarfinu fengist einnig grundvöllur til að forgangsraða gerð sjóvarna sem ætlað er að vernda menningarminjar fyrir ágangi sjávar.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir