Náði lengst hunda af Briard-kyni í 16 ár
Helgina 6.-7. september fengu 695 hreinræktaðir hundar af 80 hundategundum í dóm á alþjóðlegri hundasýningu Hundaræktarfélags Íslands sem haldin var í reiðhöllinni Víðidal í Reykjavík. Þar á meðal var skagfirska Briard-tíkin Lukka sem varð íslenskur meistari eftir sýninguna og er einungis einu stigi frá því að verða alþjóðameistari. „Það hefur aðeins einn Briard náð svona langt og það var fyrir 16 árum, þannig að þetta er stór sigur fyrir okkur,“ sagði Valdís Rúnarsdóttir eigandi Lukku.
Megintilgangur hundasýninga er að meta hundana út frá ræktunarmarkmiði hvers kyns og leiðbeina ræktendum þannig í starfi sínu. Lukka er af Briard-kyni en hún er einungis tveggja ára gömul. Þetta var í fyrsta sinn sem hún tók þátt í sýningu af þessu tagi og var hún ein af ellefu hundum sama kyni sem voru til sýningar.
Dómarar sýningarinnar koma víða að úr heiminum en sá sem dæmdi í flokki hunda af Briard-kyni var frá Ísrael. Lukka hafnaði í fyrsta sæti í flokkinum og var valin best sinnar tegundar. Lukka hélt áfram keppni og sýndi á meðal hunda sem tilheyra fjár- og hjarðhundakyni. Lukka sigraði einnig þann flokk en að sögn Valdísar hefur enginn Briard hundur náð svo langt í 16 ár. „Lukka var einnig valin ein af tíu af bestu hundum sýningarinnar, þ.e. af 695 hundum,“ sagði Valdís alsæl með árangurinn.
Í dag er Lukka orðin íslenskur meistari og á bara 1 stig eftir til þess að verða alþjóðameistari, hún er þar með stigahæsti Briardinn á árinu. „Þannig að við sveitarvargarnir komum, sáum og sigruðum,“ sagði Valdís í lokin.