„Niðurskurðurinn er greinilega ekki að virka“

Sigurbjörn Sveinsson. Mynd af netinu.
Sigurbjörn Sveinsson. Mynd af netinu.

Fyrrum formaður læknafélagsins, Sigurbjörn Sveinsson, skrifaði grein á bloggsíðu sína um niðurskurð riðufjár og segir aðgerðirnar ekki virka. „Er ekki kominn tími til að beita öðrum og hægvirkari rannsóknaraðferðum en tafarlausum niðurskurði á þessa hægvirku sýkingu til að komast til botns í hegðun hennar? spyr Sigurbjörn. Greinina skrifar Sigurbjörn eftir að hafa lesið fréttir af riðusmiti í Skagafirði og niðurskurði og veltir fyrir sér áhugaverðum hlutum sem ríma við hugmyndir margra í Skagafirði.

Sigurbjörn skrifar:
„Fyrir um 40 árum fannst riða í fé á Hornstöðum í Laxárdal, Dal. Á bænum var að mig minnir innan við 200 fjár á vetrarfóðrum, sem hafði sumarhaga í lokuðu hólfi. Land Hornstaða var  afgirt og voru menn þess fullvissir að enginn samgangur var við aðra hjörð. Smitið sem fannst var bundið við á, sem ættuð var úr Hrútafirði og lömb undan henni.  Féð var allt skorið.

Mörgum árum síðar hitti ég Margréti Guðnadóttur, prófessor í veirufræði, á göngum Alþingis, þar sem við vorum bæði að nudda í fjárveitingavaldinu. Ég tók upp þennan þráð við hana og lýsti aðstæðum fyrir vestan og þeirri skoðun minni að þarna hefði tapast gullið tækifæri til að láta féð lifa og fylgjast með gangi sjúkdómsins í hjörðinni við náttúrulegar aðstæður. Margrét tók afdráttarlaust undir þessa skoðun mína og var sammála því, að hér hafi verið skorinn vænlegur efniviður til rannsókna. Hún bætti því reyndar við, að stefnan væri hér á landi að eyða öllu þessu rannsóknarefni.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar fréttir bárust af riðusmiti í Skagafirði og niðurskurði þar. Niðurskurður hefur farið fram en ekki í Syðri Hofdölum í Blönduhlíð eftir því sem fréttir herma. Þar var smitið bundið við einn aðkomuhrút og hefur ekki fundist í öðru fé samhólfa. Bóndinn þybbast við og hefur nú Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar og nágranna sína með sér.

Er ekki kominn tími til að beita öðrum og hægvirkari rannsóknaraðferðum en tafarlausum niðurskurði á þessa hægvirku sýkingu til að komast til botns í hegðun hennar.

Niðurskurðurinn er greinilega ekki að virka.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir