North Atlantic Forum 2013 tókst frábærlega

Ráðstefnan North Atlantic Forum 2013 var bæði fjölsótt og fjölbreytt. Frummælendur voru frá öllum heimsálfum; Kína, Kanada, Ástralíu og Ungverjalandi auk Íslands, svo eitthvað sé nefnt og þátttakendur frá enn fleiri löndum. Erindi voru flutt bæði af fræðafólki, ráðgjöfum og fulltrúum opinberra aðila.

Þema ráðstefnunnar var ferðaþjónusta í dreifbýli og var ráðstefnugestum boðið að upplifa hana með því að flétta dagskrána saman við ferðir um Skagafjörð og Fjallabyggð. Fyrsta ráðstefnudaginn voru nokkur erindi flutt í Kakalaskála, félagsheimilinu Árgarði, ráðhúsi Fjallabyggðar og Listasetrinu Bæ á Höfðaströnd. Auk þess var boðið uppá hestasýningu á Varmalæk, heimsóknir í Vesturfarasetrið, Síldarminjasafnið og í Glaumbæ.  Það voru þreyttir en sælir ferðalangar sem enduðu kvöldið í miðnætursólinni á Hólum – í Sögusetri íslenska hestsins, Hóladómkirkju, í  skógargöngu eða í Bjórsetri Íslands eftir atvikum. Menningardagskráin var skagfirsk; Sigvaldi Gunnarsson lék og söng af innlifun á sínum æskuslóðum á Hólum, Helga Rós Indriðadóttir og Rögnvaldur Valbergsson fluttu fallega og fróðlega dagskrá íslenskra þjóðlaga í Hóladómkirkju, Kristín Halla Bergsdóttir og Jón Gíslason buðu gesti velkomna til kvölddagskrár í Miðgarði með ljúfum tónum og þegar Karlakórinn Heimir framdi sínar listir blikuðu hrifningartár á hvarmi gesta  – einkum kvenna.

Mynd: Hólar.is

Annar dagur ráðstefnunnar fór fram í Miðgarði. Fyrirlestrar voru fluttir og vinnusmiðjur haldnar, móttaka í Stefánsstofu í kvöldsólinni og hátíðakvöldverður var listilega fram reiddur af Hótel Varmahlíð. Milli mála gafst gestum kostur á að fara í gönguferð og þeir sem fóru á Reykjarhólinn voru ekki sviknir af útsýninu en aðrir notuðu tækifærið að slaka á í sundlauginni í Varmahlíð.

Mynd: Hólar.is

Lokadagur ráðstefnunnar var á Hólum og endaði með hádegisverði hjá Ferðaþjónustunni á Hólum, Hólableikju og myndatöku við Nýjabæ. Það voru ánægðir ráðstefnugestir sem lögðu úr hlaði síðdegis á laugardaginn, með nýjar hugmyndir,  sterkari tengsl við fagfólk og fræðimenn í ferðaþjónustu við Norður Atlantshafi og ný fyrirheit um farsælt samstarf.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru að vonum glaðir með góðan viðburð og þakka starfsfólki ráðstefnunnar, styrktaraðilum og heimafólki á Hólum og öðrum ráðstefnustöðum kærlega fyrir gott samstarf.

Lykilfyrirlestrar North Atlantic Forum 2013

 

Mynd: Hólar.is

Arvid Viken frá Noregi, Godfrey Baldacchino frá Möltu, Gunnar Þór Jóhannesson og Ólöf Ýrr Atladóttir frá Íslandi fluttu lykilfyrirlestrana. Arvid sagði frá orðræðugreiningu sinni á fræðunum um ferðaþjónustu í dreifðum byggðum og taldi að ýmsar viðteknar hugmyndir um þróun áfangastaða, klasasamstarf og fagmennsku þyrfti að endurskoða í ljósi rannsókna  og reynslu. Godfrey fjallaði um mat og ferðamennsku, en auk rannsókna á efnahagslífi eyjasamfélaga hefur hann gefið út vandaða matreiðslubók með uppskriftum frá eyjum í öllum heimshöfunum. Gunnar Þór fjallaði um tengsl frumvöðlastarfsemi og sköpunargáfu og Ólöf Ýrr gaf yfirlit og greindi stöðu ferðamála á Íslandi og í nágrannalöndunum Færeyjum og Grænlandi.

Hólar.is segir frá þessu.

Fleiri fréttir