Nú er hann lagstur í norðanátt

Færðin á Norðvesturlandi. Mynd:Skjáskot af vef Vegagerðarinnar kl. 8:24 í dag.
Færðin á Norðvesturlandi. Mynd:Skjáskot af vef Vegagerðarinnar kl. 8:24 í dag.

Vetrarveður er nú um landið norðan og austanvert og eru dregur færðin dám af því þó flestir vegir séu reyndar færir. Ófært er um Þverárfjall vegna óveðurs og einnig á Siglufjarðarvegi utan Ketiláss. Þar er óvissustig vegna snjóflóðahættu í gildi. Þungfært er milli Ketiláss og Hofsóss og snjóþekja með skafrenningi og éljagangi milli Hofsóss og Sauðárkróks. Vegurinn um Öxnadalsheiði er þungfær og þar er skafrenningur. Á öðrum vegum er hálka samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is.

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðlægri átt á landinu næstu daga. Í dag verður norðan 10-18 m/s á Ströndum og Norðurlandi vestra, hvassast á annesjum og Ströndum. Snjókoma og vægt frost, en él á morgun og frost 2 til 7 stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vedur.is segir:

„Nú er hann lagstur í ákveðna norðanátt hjá okkur og í grófum dráttum verður sama veður út vikuna. Það snjóar á norðurhelmingi landsins og mesta úrkoman verður um miðbik Norðurlands á utanverðum Tröllaskaga. Sunnantil á landinu verður skýjað með köflum og úrkomulaust að mestu. Það er búist við frosti á öllu landinu. Þó frosttölur á mæli verði yfirleitt ekki háar, getur kuldinn bitið í kinnar í stífri norðanáttinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir