Óboðinn gestur fór inn í hús á Siglufirði

Frá Siglufirði. Mynd: Trölli.is.
Frá Siglufirði. Mynd: Trölli.is.

Í fyrrinótt gekk dökkklæddur fremur lágvaxinn maður með svarta skíðagrímu fyrir andlitinu inn í nokkur hús í suðurbænum á Siglufirði en eftir því sem fram kemur á Trölla.is er ekki vitað hvort fleiri þjófar en hann hafi verið á ferðinni. Ekki var um innbrot að ræða, þar sem hann fór inn var óslæst og telst það vera húsbrot að sögn lögreglunnar en að minnsta kosti tveir einstaklingar urðu mannsins varir og varð þeim mikið um að mæta honum innandyra hjá sér.

„Eins hurfu verðmæti hjá öðrum þar sem þjófurinn komst inn og lét greipar sópa. Talið er að hann hafi athafnað sig um og eftir miðnætti. Sigurbjörn Þorgeirsson lögreglumaður í Fjallabyggð segir málið grafalvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að öll húsin voru ólæst og þurfa íbúar að horfa fram á nýjan raunveruleika, þar sem ekki er lengur óhætt að hafa húsin ólæst. Lögreglan leitaði mannsins fram eftir nóttu en hafði ekki erindi sem erfiði,“ segir á Trölli.is.

Lögreglan á Norðurlandi eystra setti tilkynningu á Facebook-síðu embættisins þar sem íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að huga að verðmætum sínum og geyma slíka hluti ekki fyrir allra augum. Ennfremur að læsa húsum sínum og geymslum vegna ítrekaðra þjófnaða og innbrota á svæðinu.

„Málin eru í vinnslu og vonandi tekst okkur að upplýsa þessa þjófnaði en kæru íbúar Fjallabyggðar, verið á varðbergi. Þetta gildir auðvitað fyrir alla okkar lesendur, að huga að verðmætum, læsa húsum þegar farið er af bæ.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir