Opnað fyrir skimunarsögu íslenskra kvenna

Á vefgáttinni Mínar síður á island.is geta konur nú skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands.

Samkvæmt samningi við heilbrigðisyfirvöld sér Krabbameinsfélagið um skimun fyrir krabbameini í leghálsi hjá konum á aldrinum 23-65 ára og fyrir krabbameini í brjóstum hjá konum á aldrinum 40-69 ára. Regluleg þátttaka í skimuninni er meðal annars forsenda þess að greina megi forstig krabbameins í leghálsi og frumstig krabbameins í brjóstum. Það er því mikilvægt að konum sé gert kleift að sjá heildaryfirlit yfir þátttöku sína í skimun.

Skimunarsagan nær aftur til ársins 2006 og í henni eru upplýsingar um hvenær kona fékk boð um þátttöku í skimun fyrir krabbameini í leghálsi og/eða brjóstum, hvenær hún mætti og hvar.

„Þetta er stór áfangi fyrir íslenskar konur þar sem regluleg mæting kvenna í skimun er afar mikilvægur liður í því að lækka dánartíðni vegna legháls- og brjóstakrabbameins. Það er von Krabbameinsfélagsins að Skimunarsagan verði til þess að auka vitund kvenna og hvetja þær til þátttöku,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Hægt er að nota hvort sem er Íslykil eða rafræn skilríki til þess að fá aðgang að Skimunarsögu.

Hér er beinn hlekkur á innskráningu á mínar síður á Ísland.is.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir