Öxnadalsheiði lokuð til morguns í það minnsta

Það er vissara að fylgjast með fréttum af færð og veðri áður en haldið er út í kvöldið. MYND: ÓAB
Það er vissara að fylgjast með fréttum af færð og veðri áður en haldið er út í kvöldið. MYND: ÓAB

Leiðinda vetrarveður gengur nú yfir landið með hvassviðri og ofankomu. Á vef Vegagerðarinnar má sjá að Öxnadalsheiðin er ófær, heiðin hefur verið lokuð vegna óveðurs frá því um hádegi og verður ekki opnuð aftur í dag. Áætlað er að staðan verði tekin næst kl. 8 í fyrramálið (fimmtudagsmorgun). Flestir aðrir vegir á Norðurlandi eru færir en víðast hvar er snjóþekja, hálka eða hálkublettir en aðstæður víða slæmar, éljagangur og skafrenningur, og því vissara að hafa varann á.

Veðurstofan gerir ráð fyrir hvassviðri og ofankomu á Öxnadalsheiði fram eftir degi á morgun þó vindur gangi nokkuð niður um og upp úr hádegi. Spáin fyrir Norðurland vestra gerir ráð fyrir suðvestan 18-25 m/s seinni partinn í dag og éljum. Hiti í kringum frostmark. Dregur úr vindi og úrkomu á morgun, sunnan 5-10 og þurrt annað kvöld.

Skaplegt veður verður á föstudag og um helgina en á mánudag er búist við sunnanstrekkingi en hitinn gæti nálgast tíu stigin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir