PCR sýnatökur á Króknum um helgina – Hertari sóttvarnareglur

Mynd af netinu.
Mynd af netinu.

Á  heimasíðu HSN kemur fram að á morgun laugardaginn 15. janúar og sunnudaginn 16. janúar verður boðið upp á PCR sýnatökur á heilsugæslunni á Sauðárkróki á milli klukkan 09:30-10:00. Hertar aðgerðir í sóttvarnamálum taka gildi á miðnætti.

Þá mun verða leyfilegt tíu manns að koma saman í stað 20 áður, skemmtistöðum verður lokað og fjölmennir viðburðir þar sem neikvæðum hraðprófum er fram­ísað verða ekki heimilaðir. Aðgerðirnar taka gildi á miðnætti og gilda til 2. febrúar.

Mbl.is greinir frá því að sundlaugar og líkamsræktarstöðvar megi enn hafa opið og miðast fjöldi við 50% af leyfilegum hámarksfjölda.

„Skólareglugerð frá því í fyrri aðgerðum verður óbreytt. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé „prinsippatriði“ að halda skólum opnum. Aðgerðirnar taka mið af einni tillögu af alls þremur sem sóttvarnalæknir lagði til við heilbrigðisráðherra.

Lokunarstyrkir munu bjóðast þeim fyrirtækjum sem loka þurfa sinni starfsemi. Þá verður reynt að koma til móts við starfsfólk í heilbrigðiskerfinu til þess að létta þungan róður á því sviði,“ segir á mbl.is.

Alls greindust 1133 smit innanlands í gær og eru nú 9671 einstaklingur í einangrun á landinu öllu og 11061 í sóttkví. Á Norðurland vestra eru 59 í einangrun og 143 í sóttkví. Á covid.is kemur fram að fjöldi sjúklinga á gjörgæslu sé 43, einn þeirra liggur á FSA, og átta á gjörgæslu en fjórir þeirra eru í öndunarvél. Af þeim sem liggja á gjörgæsludeild Landspítalans eru 28 bólusettir en 14 óbólusettir eftir því sem kemur fram á vef spítalans.

Uppfært:
Almennar samkomutakmarkanir sem heilbrigðisráðherra boðar eru komnar á vef stjórnarráðsins en megininntak þeirra eru:

Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 10 manns.
Áfram 2 metra nálægðarmörk og óbreyttar reglur um grímuskyldu.
Áfram 20 manns að hámarki í rými á veitingastöðum og óbreyttur opnunartími.
Sviðslistir heimilar með allt að 50 áhorfendum í hólfi.
Heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur brott.

Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði áfram með 50% afköst.
Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
Hámarksfjöldi í verslunum fari úr 500 í 200 manns.
Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað.

Sjá nánar HÉR

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir