Leggja fram sambærilega þingsályktunartillögu og Stefán Guðmundsson gerði fyrir hartnær 30 árum

Mynd af vatnsidnadur.net.
Mynd af vatnsidnadur.net.

Þingflokkur Pírata og Framsóknarþingmennirnir Líneik Anna Sævarsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir kalla eftir því að Ísland setji sér, í fyrsta sinn í sögunni, opinbera iðnaðarstefnu. Að þeirra mati má aukin áhersla á nýsköpun, loftslagsmál, sjálfbærni og framleiðni sín lítils án slíkrar stefnu til framtíðar. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, mælti fyrir þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi í dag.

Í tilkynningu flutningsmanna segir að ákallið eigi sér langa sögu þar sem Stefán Guðmundsson, þingmaður Framsóknar á Norðurlandi vestra, lagði fram sambærilega þingsályktunartillögu fyrir hartnær 30 árum síðan. Með því reyndi hann að endurvekja vinnu úr iðnaðarráðuneytinu frá 1978. Þrátt fyrir það, segir í tilkynningunni, er engin heildstæð iðnaðar- og atvinnustefna á Íslandi, aðeins margar ólíkar stefnur sem snúa að afmörkuðum málaflokkum.

Hætti að styðjast við haglabyssur og hvalreka
„Fyrir vikið hafa Íslendingar stuðst við það sem Smári kallar „haglabyssuaðferðina“. Stjórnvöld hafa hlaðið hagkerfið „ómarkvissum tækifæriskornum og láta það skjóta hingað og þangað. Vissulega mun það stöku sinnum hæfa og jafnvel skilja eftir sig varanlegt spor, en það vita samt allir að hægt er að ná meiri árangri með því að miða,“ segir Smári.

Það þurfi að hverfa frá óbilandi trú stjórnvalda á áframhaldandi vænleika hvalrekahagkerfisins sem bar til Íslands stórútgerðir, áliðnað, bankabransa, makríl og nú nýlega ferðamannastraum. Slíkri handahófskenndri nálgun má þó ekki rugla saman við hagstjórn að mati flutningsmanna.

Þess vegna telja þau nauðsynlegt að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra móti sjálfbæra iðnaðar- og atvinnustefnu, sem líti sérstaklega til þess hvernig bæta megi framleiðni, fjölbreytni og sjálfbærni íslensks iðnaðar. Mótun slíkrar stefnu væri mikilvægt fyrsta skref í að móta framtíðarsýn Íslands eftir heimsfaraldur COVID-19, ekki síst í ljósi loftlagsbreytinga. Stefnan þurfi að vera tilbúin innan hálfs árs“ segir í tilkynningu Pírata og Framsóknar til fjölmiðla í dag.

Nánar má fræðast um þingsályktunartillögu Framsóknarmanna og Pírata HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir