Rabb-a-babb 161: Gauja Hlín

Gauja Hlín. AÐSEND MYND
Gauja Hlín. AÐSEND MYND

Nafn: Guðríður Hlín Helgudóttir en alltaf kölluð Gauja.
Árgangur: 1987.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Ólafi Tryggvasyni og eigum við saman Tryggva Gunnar (5 ára) og Helga Leó (4 ára) en svo á ég líka stjúpdótturina Júlíu Jöru.
Búseta: Á besta stað á Hvammstanga.
Starf / nám: Ferðaskrifstofustjóri Seal Travel, verkefnastjóri Selasetursins og nýkjörin formaður Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra.
Hvað er í deiglunni: Það er sjaldan lognmolla í kringum mig en í augnablikinu er ég að ljúka við gerð smáforrits (e. app) sem er leiðsögn og upplýsingaforrit fyrir ferðamenn, og aðra, um Húnaþing vestra, við erum einnig að ljúka við DMP vinnu fyrir Norðurland, undirbúa sumarið á Selasetrinu ásamt ýmsum öðrum skemmtilegum verkefnum með stjórn Ferðamálasamtakanna.

Hvernig nemandi varstu? Ég vona að ég hafi verið ágætur nemandi, áhugasöm og dugleg varðandi efni sem ég hafði áhuga á þó að ýmislegt gæti hafa verið sett í skammtímaminnið.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þar sem að ég er gríðarlegt afmælisbarn og fermdist á afmælisdaginn minn man ég mest eftir því hvað ég var ánægð með DVD spilara sem ég fékk í fermingargjöf því þar fékk ég ástæðu til þess að fara útá næstu videoleigu, leigja mér DVD mynd, segja kennitöluna mína og þannig fá aðra afmæliskveðju frá starfsmanninum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði mér að verða rannsóknarlögreglumaður, arkitekt eða lýtalæknir og varð því augljóslega ferðamálafræðingur.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Það voru dúkkulísur sem afi klippti út fyrir mig og ég litaði síðan. Ég á þær ennþá.

Besti ilmurinn?Allt sem á einhvern máta má tengja við jólin.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég og besta vinkona mín vorum ákaflega duglegar við að tína saman bestu lög hvers tíma og lögðum hug okkar og hjarta í að búa til safndiska sem var það eina sem hlustað var á í rauðgulu Nissan Micrunni sem var farartækið mitt á þeim tíma. Á diskunum mátti finna allt frá Snoop Dog til Karlakórsins Heimis – en hvert lag var sérvalið.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? I Will Survive með Arethu Franklin - fyrirgefið allir sem hafa eða munu heyra mig í kareókí.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Áramótaskaupinu.

Besta bíómyndin? Cry Baby, vegna þess að ég á bara góðar minningar með mömmu tengdar þeim skiptum sem ég hef horft á hana.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta, í heild.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Keyri gokartbíla.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Þar sem að ég er með ofnæmispésa á heimilinu hef ég þurft að læra nýjar leiðir í mörgu en ætli það sé ekki döðlukakan mín.

Hættulegasta helgarnammið? 50% afslátturinn í Hagkaup, hef án gríns keyrt 200 km fyrir hann.

Hvernig er eggið best? Þar sem sonur minn er með mikið eggjaofnæmi þá finnst mér eggið best sem lengst í burtu frá honum.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Get verið fullkomnunarsinni hvað varðar sjálfa mig.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Fordómar og ókurteisi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Það gerist það sem á að gerast.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Einn leikskóladaginn minn grófum ég og vinur minn göng undir hliðið út af leikskólalóðinni og hlupum til fjölskylduvinar sem bjó nálægt. Komum stuttu seinna til baka með alla vasa fulla af Daim súkkulaði. Ég hef verið um 4 ára.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Dóra í Leitin af Nemo – Just keep swimming.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Ég myndi vilja vera Jeff Bezos [stofnanda Amazon-netverslunarinnar] og nýta alla frægðina hans og peninginn í það að gera heiminn betri fyrir alla.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Dóttir Veðurguðsins er frábær bók til að lesa fyrir eða með börnunum sínum. Helga Sv. Helgadóttir er ekki bara snillingur þegar kemur að því að skrifa bækur sem höfða til allra heldur er hún líka uppáhalds mamman mín.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „mmmbæ” skilst mér á þeim sem hafa talað við mig í síma.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Að mínu mati eru það amma mín og afi.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Færi til ársins 1950 og myndi hanga með ömmu og afa. Afi var stórskemmtilegur söngfugl frá Skagafirði svo að það var aldrei leiðinlegt í kringum þau tvö.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Ég sagði ykkur að þetta myndi reddast!”

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... beint til Spánar með alla sem ég elska

Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Hníf, Sriracha sósu og bjór.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Vera partur af uppbyggingu og vexti ferðaþjónustu á Norðurlandi, fá súkkulaði nefnt eftir mér og auðvitað þetta sígilda: að sjá börnin mín vaxa og dafna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir