Rabb-a-babb 225: Atli Freyr

Atli Freyr ásamt nokkrum efnilegum ungum golfurum. MYND AÐSEND
Atli Freyr ásamt nokkrum efnilegum ungum golfurum. MYND AÐSEND

Atli Freyr Rafnsson frá Króknum fékk það verðuga verkefni að svara Rabb-a-babbi í Feyki og var það frekar strembin fæðing en útkoman svona ljómandi góð. Atli Freyr er fæddur árið 1997 eða um það leyti sem Tiger Woods vann sitt fyrsta Master mót og fyrsti þáttur af South Park fór í loftið.

Atli er sonur Árnýjar Lilju Árnadóttur, sjúkraþjálfara, og Rafns Inga Rafnssonar, fram-leiðslustjóra í Steinullinni, og er því alinn upp á Króknum en flutti til Reykjavíkur fyrir fimm árum síðan. Atli starfar sem íþróttastjóri Golfklúbbs Skagafjarðar og er með BS gráðu í íþrótta- og heilsufræði en er að vinna í því að klára master í íþróttafræði eins og staðan er núna.

Hvernig nemandi varstu?  „Ég hugsa að í heildina litið hafi ég verið ansi góður nemandi. Ég á ansi auðvelt með að læra og meðtaka hlutina þegar ég nenni að standa í því. Í framhaldsskóla tók ég samt út alla letina.“

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? „Ég var mjög spenntur fyrir því að losna út úr kirkjunni og komast heim að opna pakkana.“

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? „Mig minnir að ég hafi ætlað að verða arkitekt, en það var hreinlega bara vegna þess að einhver sannfærði mig um að maður væri bara að teikna allan daginn. Þegar kom í ljós að svo væri ekki, var þetta fljótt að gleymast.“

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? „Lego allan daginn.“

Besti ilmurinn? „Nýslegið gras.“

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? „Mér finnst ólíklegt að ég hafi sett lagið á en ég man að Gleðibankinn var í gangi þegar ég settist upp í bílinn.“

Hvernig slakarðu á? „Ég fer upp á golfvöll og spila 9–18 holur með tónlist í eyrunum.“

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? „Ég horfi voðalega lítið á sjónvarp. Mér finnst ég ekki vera að missa af neinu þannig.“

Besta bíómyndin? „2 Guns er besta myndin í kvikmyndasögunni.“

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? „Úff, þegar stórt er spurt, mér finnst allir þeir sem æfa golf hjá mér vera bestu íþróttamennirnir. Þannig að ef einhvern langar að vera besti íþróttamaðurinn þá er símanúmerið mitt 857-6636 fyrir golfkennslu. Svo eru þeir víst nokkrir ágætir í körfunni líka.“

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? „Það er mjög hæfileikaríkt fólk á mínu heimili, en ég hugsa að ég geri almennt allt aðeins betur en þau öll.“

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? „Úff, upp á síðkastið hef ég verið að elda mikið af indverskum mat. En allt sem að ég ákveð að elda endar yfirleitt sem algjör snilld.“

Hættulegasta helgarnammið? „Ef að ég kemst í eitthvað nammi þá klárast það á mettíma. Ætli eitthvað súkku-laði sé ekki það hættulegasta samt.

Hvernig er eggið best? „Linsoðið.“

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? „Ég á það til að vera mjög fljótfær. Hlutirnir þurfa helst að gerast strax.“

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? „Þegar fólk er lengi að hlutunum, hugsanlega tengt fjótfærninni.“

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? „Það er maðkur í mysunni!“

Hver er elsta minningin sem þú átt? „Sennilega ekki sú elsta, en það er brennt inni í hausinn á mér þegar ég gerði tilraun til þess að strjúka úr leikskólanum. Í minningunni var þetta gjörsamlega úthugsað, ég var búinn að undirbúa mig heillengi og svo kom fullkomna tækifærið og ég hljóp beinustu leið út um hliðið. Ég hugsa að planið hefði getað verið betur framkvæmt, þar sem að ég komst sennilega ekki lengra en tíu metra frá leikskólanum áður en leikskólakennararnir náðu mér og húðskömmuðu mig.“

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? „Bogi Ágústsson, ég myndi bara hanga og horfa á fréttirnar.“

Hver er uppáhalds bókin þín? „Feykir er mitt uppáhalds lesefni.“

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Þetta reddast!“

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? „Ronaldo, Tiger Woods og Boga Ágústssyni.“

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? „Ég myndi fara til 2017 og bróka sjálfan mig fyrir að eyða svona löngum tíma í framhaldss-kóla.“

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Fljótfær og flottur.“

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... „Til Vestmanna-eyja.“

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: „Ég er mjög einbeittur í starfi mínu hjá Golfklúbbi Skagafjarðar eins og er og mér þætti mjög gaman að ná enn meiri árangri þar í náinni framtíð, vonandi Íslandsmeisturum. Svo þarf ég sjálfur að koma mér a.m.k. einu sinni á Íslandsmeist-aramót í golfi. Mig langar annars bara að ferðast eitthvað skemmtilegt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir