Reiðnámskeið hjá Hestamannafélaginu Neista

Mynd: Neisti.net
Mynd: Neisti.net

Í vetur mun Hestamannafélagið Neisti bjóða upp á reiðnámskeið. Guðrún Rut Hreiðarsdóttir sem menntuð er sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum verður kennari á námskeiðunum. Mörg námskeið verða í boði, s.s. Pollanámskeið ætluð börnum 7 ára og yngri, almenn reiðnámskeið fyrir 8-10 og 11-14 ára og Knapamerki. Skráning fer fram hjá Guðrúnu á gudrunrut@hotmail.com eða í síma 695-8766. Síðasti skráningardagur er laugardaginn 6. janúar.

Kynningarfundur um æskulýðsstarfið verður haldinn á morgun, fimmtudaginn 4. janúar klukkan 17:00 í reiðhöllinni. Þar verður farið nánar yfir skipulag vetrarins. 

Boðið verður upp á eftirtalin námskeið: 

Pollanámskeið – teymdir
Lögð verður áhersla á jafnvægi á hestbaki og grunnstjórnun hestsins í gegnum leiki og þrautir. Foreldrar/aðstoðarmenn nemanda teyma undir börnunum. Ætlað fyrir 7 ára og yngri.

Pollanámskeið – ekki teymdir 
Fyrir þau sem eru tilbúin að stjórna sjálf. Lögð verður áhersla á jafnvægi á hestbaki og stjórnun hestsins í gegnum leik og þrautir. Ætlað fyrir 7 ára og yngri.

Almennt reiðnámskeið 8 – 10 ára 
Almenn reiðnámskeið fyrir alla krakka. Áhersla lögð á ásetu og stjórnun hestsins og aukið sjálfstæði í umgengni við hestinn. Leikir og þrautir á hestbaki.

Almennt reiðnámskeið 11 – 14 ára
Almenn reiðnámskeið fyrir alla krakka 11-14 ára. Áhersla lögð á ásetu og stjórnun hestsins, að þekkja gangtegundir og gangskiptingar. Leikir og þrautir á hestbaki.

Einnig verður boðið upp á kennslu í Knapamerkjum. Knapamerkin eru stigskipt nám sem fela í sér að bæta þekkingu á meðferð, notkun og umhirðu íslenska hestsins á breiðum grunni. Nemendur eru leiddir stig af stigi í takt við getu og áhuga.

Knapamerki 1 - 12 ára og eldri
Að undirbúa hest rétt fyrir reið. Geti teymt hestinn á múl eða beisli við hlið sér á feti og brokki/tölti. Geti farið á og af baki beggja megin. Kunni rétt taumhald og að stytta rétt í taumi. Geti setið hest í lóðréttri (hlutlausri) ásetu á feti, tölti/brokki og hægu stökki. Geti framkvæmt nokkrar sætisæfingar í hringtaum skv. stjórnun frá kennara. Geti skipt á milli hlutlausrar ásetu, hálfléttrar og stígandi ásetu (1. stig stígandi ásetu). Kunni að skilja rétt við hest og búnað að reiðtíma loknum.

Knapamerki 2 
Geta látið hestinn kyssa ístöð á baki og við hönd, til beggja hliða. Riðið einfaldar gangskiptingar. Riðið helstu reiðleiðir á reiðvelli. Geta riðið í hlutlausri lóðréttri ásetu, hálfléttri og stígandi ásetu. Hafa gott jafnvægi á baki hestsins og nota rétt taumhald. Látið hestinn stoppa, standa kyrran og ganga aftur af stað. Geta riðið á slökum taum. Sýna það í reiðmennsku og umgengni við hestinn að hann hafi tileinkað sér rétt viðhorf til hans. Geta riðið hesti á víðavangi, haft góða stjórn og gætt fyllsta öryggis.

Knapamerki 3 og 4 
Mögulega verða knapamerki 3 og 4 kennd ef áhugi er fyrir hendi. Fjöldi tíma, tímasetningar og verð verður gefið upp að loknum síðasta skráningardegi.

Einka- eða parakennsla fyrir fullorðna
Einstaklingsmiðaðir reiðtímar sem fela í sér að aðstoða nemendur í að ná þeim raunhæfu markmiðum sem þeir setja sér með sjálfan sig og sinn hest jafnt byrjendur sem lengra komna.

Sé áhugi fyrir hendi er stefnt á að fá gestakennara og myndi sú kennsla fara fram um helgi, tvo til þrjá daga í röð.

Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á heimasíðu Neista, www.neisti.net.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir