Röskun á skólahaldi og árshátíð frestað í Varmahlíðarskóla

Appelsínugul viðvörun frá Veðurstofunni er í gildi fyrir Norðurland vestra. Skjáskot af vef Veðurstofunnar, Vedur.is.
Appelsínugul viðvörun frá Veðurstofunni er í gildi fyrir Norðurland vestra. Skjáskot af vef Veðurstofunnar, Vedur.is.

Vonskuveður er nú um norðanvert landið og spáir Veðurstofan norðan 18-23 m/s með talsverðri snjókomu eða skafrenningi. Búast má við slæmu skyggni og slæmu ferðaveðri bæði á fjallvegum og láglendi. Veðurhorfur á landinu eru þær að á morgun dragi úr úrkomu fyrir norðan og austan og vind fari að lægja um vestanvert landið.

Á laugardag spáir norðvestan 13-20 m/s og él NA-lands fram eftir degi, hvassast á annesjum, en lægir síðan og rofar til. Mun hægari norðanátt og víða léttskýjað í öðrum landshlutum. Frost yfirleitt 1 til 6 stig. Horfur fyrir sunnudag eru þær að hæg breytileg átt verði og skýjað með köflum en skammvinn austanátt og dálítil snjókoma eða slydda SV-til um tíma. Frost víða 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins. 

Nú er þæfingur eða snjóþekja á flestum vegum í Skagafirði en á aðalleiðum í Húnavatnssýslu er hált.

Skólahaldi hefur verið aflýst í dag í Grunnskólanum austan Vatna og í Húnavallaskóla. í Grunnskóla Húnaþings vestra og í Varmahlíð er enginn skólaakstur í dag og í Varmahlíðarskóla hefur árshátíð yngra stigs, sem vera átti í dag,verið frestað um viku, eða til fimmtudagsins 30. nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir