Rumba í lok mánaðarins
Þriðjudaginn 2. maí 2017 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Hófst hann kl. 14:00 og voru fundarmenn ellefu talsins. Fundinum lauk kl. 14:25. Farið var yfir spágildi veðurspár fyrir aprílmánuð og voru fundarmenn sammála um að þar hefði vel tekist til.
Tunglið sem kviknaði 26. apríl kl. 12:16 í suðaustri er ríkjandi fyrir veðurfar í maí mánuði og bendir allt til þess að veður í maí verði gott. Svolítið breytilegt en verri veðurkaflar standa mjög stutt. Reikna má með smá rumbu alveg í lok mánaðarins.
Fundarmenn segja að ríkjandi vindáttir munu verða norðan og norðvestan og hitastig viðunandi og benda á gamla veðurvísbendingu sem segir að það sem viðrar á tveggja postula messu, sem var 1. maí, héldu þeir gömlu að stæði til 4. í hvítasunnu.
Veðurvísa apríl og maí
Í apríl sumrar aftur
þá ómar söngur nýr.
Í maí flytur fólkið
og fuglinn hreiður býr.