Sameiningarkönnun meðfram alþingiskosningum í Húnavatnshreppi

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur ákveðið að kanna hug íbúa sveitarfélagsins til þess hvort hefja skuli sameiningarviðræður við Blönduósbæ. Hafi íbúar áhuga á að sameiningarviðræður fari fram, er stefnt að því að íbúar beggja sveitarfélaga kjósi um sameiningu þeirra í byrjun árs 2022 með það fyrir augum að kosið yrði til nýrrar sveitarstjórnar í maí 2022.

Þetta kemur fram á heimasíðu sveitarfélagsins en áður en til þess kemur myndi fara fram almenn kynning og umræða eins og lög gera ráð fyrir við sameiningarviðræður. Íbúar geta sent sveitarstjórn spurningar á netfangið konnun@hunavatnshreppur.is og verður þeim spurningum svarað á vefsíðu sveitarfélagsins.

Hægt er að taka þátt á kjörstað alþingiskosninga að Húnavöllum milli kl. 11:00 og 19:00 þann 25. september en utankjörfundar á skrifstofu sveitarfélagsins á opnunartíma. Íbúar sem eru á sjúkrastofnun geta óskað eftir því að taka þátt með því að senda beiðni á netfangið konnun@hunavatnshreppur.is. Íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri þann 25. september og eiga lögheimili í Húnavatnshreppi þann 30. ágúst eru gjaldgengir í könnuninni en norrænir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag

og náð hafa 18 ára aldri, og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt og náð hafa 18 ára aldri hafa einnig rétt á þátttöku.

Skoðanakönnunin fer fram á sambærilegan hátt og kosningar, en er ekki bindandi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir