Samstarf yngri flokka í fótboltanum á Norðurlandi vestra

26 kappar af Norðurlandi vestra voru mættir til æfinga á gervigrasið á Króknum fyrir jólin. Þetta er sannarlega spennandi samstarf og jákvætt fyrir alla aðila. MYND: TINDASTÓLL.IS
26 kappar af Norðurlandi vestra voru mættir til æfinga á gervigrasið á Króknum fyrir jólin. Þetta er sannarlega spennandi samstarf og jákvætt fyrir alla aðila. MYND: TINDASTÓLL.IS

Á dögunum var undirritaður samningur milli knattspyrnudeilda Tindastóls, Kormáks og Hvatar um að senda sameiginleg lið í yngri flokkum til leiks á Íslandsmótið í knattspyrnu tímabilið 2022.

Á heimasíðu Tindastóls segir að flokkarnir sem sameiningin nær yfir eru fjórði og þriðji flokkur karla og kvenna, og annar flokkur karla. Liðin munu keppa undir nafninu Tindastóll/Hvöt/Kormákur.

Þórólfur Sveinsson yfirþjálfari yngri flokka hjá Tindastól segir að þetta séu frábærar fréttir og stór þáttur í að byggja upp öfluga yngri flokka sem mun skila landshlutanum öflugu heimafólki upp í meistaraflokka. „Einnig erum við að horfa á að með þessari sameiningu getum við búið til flott lið í öðrum flokki karla og kvenna, krakkar sem geta verið hér í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Króknum og æft við toppaðstæður og þjálfun. Í FNV er knattspyrnuakademía sem við erum að efla enn frekar og því er þetta frábært fyrir allt samfélagið hér í heild,” segir Tóti í spjalli við Tindastóll.is.

Kannski eru einhverjir hissa á að það þurfi að sameina liðin á Norðurlandi vestra en það er staðreynd að þegar fótboltakrakkarnir eru komnir á táningsaldur þá rjátlast talsvert úr hópi þeirra sem stunda fótboltann. Þetta var ekki mikið vandamál undir lok síðustu aldar þegar fátt annað en fótboltinn var í boði en nú er margt sem glepur og samkeppnin um áhugamálin hörð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir