Sex ungmenni í úrtak fyrir U-18 landslið

Það komu frábærar fréttir úr barnastarfinu hjá Pílukastfélagi Skagafjarðar í dag þegar sagt var frá því að sex börn úr starfinu hafa verið valin í úrtak fyrir U-18 ára landslið Íslands sem mun taka þátt í landsliðsverkefni fyrir Íslandshönd næsta sumar. „Þetta er ótrúlega mikil heiður og flott afrek hjá þessum krökkum með að vera valin í þetta verkefni en þau eiga það fyllilega skilið eftir frábæran árangur á mótum ÍPS á síðasta ári. Allir þessir krakkar hafa verið að æfa hjá félaginu frá stofnun barnastarfsins og hafa verið dugleg að æfa og mæta á mót bæði innan félags sem og á landsvísu,“ segir Júlíus Helgi þjálfari hjá Pílukastfélaginu. 
 
Á Facebooksíðu Pílukastfélagsins eru þetta börnin í stafrófsröð: 
 
Birna Guðrún Júlíusdóttir tók þátt í öllum Dartungmótum ársins 2025 í flokki U-14 og vann þar þrjú silfur og eitt brons sem skilaði henni í öðru sæti í heildarstigakeppni Dartung. Sömuleiðis tók hún þátt í íslandsmóti ungmenna í flokki U-14 og endaði þar í 3.-4. sæti.

Gerður Júlía Kristjánsdóttir tók þátt tveimur Dartungmótum í flokki U-14 og vann þar eitt gull og eitt brons sem skilaði henni í þriðja sæti í heildarstigakeppni Dartung.

Nína Júlía Þórðardóttir tók þátt í einu Dartungmóti í flokki U-14 þar sem hún náði öðru sæti. Sá árángur skilaði henni í 4. sæti í heildarstigakeppni Dartung. Einnig tók Nína þátt í Íslandsmóti Ungmenna í flokki U-14 og endaði þar sömuleiðis í öðru sæti.

Rakel Birta Gunnarsdóttir hafði ekki tök á að taka þátt í Dartung á seinasta ári en var hins vegar með og tók þátt í Íslandsmóti ungmenna í flokki U-14 þar sem hún endaði í 3.-4. sæti. Rakel vakti hins vegar áhuga landsliðsþjálfarans í heimsókn hans til PKS síðasta haust og var því valin í hópinn sem hún á svo sannalega skilið.

Friðrik Henrý Árnason hefur átt einstaklega gott ár 2025. Henrý tók þátt í öllum mótum Dartung árið 2025 og vann þrjú mót og endaði einu sinni í 3.-4. sæti í flokki U-14. Sá árangur skilaði honum efsta sæti í heildarstigakeppni Dartung. Henrý tók þátt íslandsmóti ungmenna í flokki U-14 en datt þar út í 8 manna úrslitum. Henrý hefur að auki verið duglegur að taka þátt í mótum bæði í barna- og fullorðinsflokki og hefur náð eftirtektarverðum árangri í þeim.

Sigurbjörn Darri Pétursson tók þátt í tveimur mótum í Dartung 2025 í flokki U-14 og náði þar einu silfri og einu bronsi. Sá árángur skilaði honum 7. sæti í heildarstigalista Dartung. Sigurbjörn tók einnig þátt íslandsmóti ungmenna í flokki U-14 en datt þar út í 16 manna úrslitum. Eins og með Rakel stóð Sigurbjörn sig vel þegar landsliðsþjálfarinn var í heimsókn sem hjálpaði honum að vera valinn í úrtakshópinn.

 

Við hjá Feyki óskum þessum krökkum innilega til hamingju með tilnefninguna. 

Fleiri fréttir