Siglingaklúbburinn með sinn fyrsta sigur í 3. deildinni
Siglingaklúbburinn Drangey tók á móti lið KB síðastliðinn laugardag og var spilað á Sauðárkróksvelli. Staðan var jöfn í hálfleik en í síðari hálfleik reyndust Drangeyjarjarlarnir sterkari og sigldu í höfn 4-2 sigri.
KB stendur fyrir Knattspyrnufélag Breiðholts en um er að ræða nokkurs konar varalið Leiknis. Þeir náðu forystunni með marki Stefáns Gunnarssonar á 24. mínútu. Tíu mínútum síðar jafnaði Benjamín Gunnlaugarson metin og staðan 1-1 í hálfleik. Aftur kom Stefán KB yfir á 60. mínútu en skallamaskínan Bjarki Már Árnason jafnaði metin stuttu síðar og strax í kjölfarið kom Hilmar Þór Kárason Drangey yfir. Það var síðan Ingvi Rafn Ingvarsson sem gulltryggði sigurinn með marki undir lok venjulegs leiktíma.
Drangey hefur nú leikið þrjá leiki; unnið einn leik, gert eitt jafntefli og tapað einum. Liðið er í 2.-5. sæti í b-riðli 3. deildar en átta lið eru í riðlinum. Næsti leikur er gegn ÍH á Kaplakrikavelli á morgun en næsti heimaleikur er 16. júní gegn liði SR en það ku vera varalið Þróttar Reykjavík.