Sjómannadagurinn á Hofsósi

Að venju var mikið um að vera á sjómannadeginum á Hofsósi í gær en samkvæmt venju safnast fólk niður í Kvosina, hlýða á hugvekju sóknarprestsins, renna færi í sjóinn af bryggjunni og keppast við að krækja í stærsta fiskinn. Svo færist fjör í leikinn er koddaslagurinn hefst á trébryggjunni en þar fá margir kalt bað í sjónum.

Kararóður er vinsælt hjá unga fólkinu en stakkasundið er fyrir lengra komna. Eftir skemmtisiglingu, sem nú var farin á þremur bátum, var vel mætt í kaffihlaðborð Slysavarnardeildarinnar Hörpu í Höfðaborg. Þar fengu yngstu gestirnir að hoppa nægju sína eftir kökuátið í hoppuköstulum meðan eldri gestir horfðu á heimildarmyndina „Ég er ekki svo fallegt landslag“ eftir Emiliano Monaco. Myndin fjallar um tvo félaga frá Hofsósi sem komnir eru af léttasta skeiðinu en sækja saman sjóinn þrátt fyrir að vera komnir á eftirlaun. Hér fyrir neðan má sjá hvernig stemningin var á Hofsósi.

.

Fleiri fréttir