Skagafjörður með þrjár hraðhleðslustöðvar
Á síðasta fundi byggðarráðs Svf. Skagafjarðar var lagður fram tölvupóstur frá Vistorku ehf., þar sem tilkynnt var um afgreiðslu Orkusjóðs á umsókn félagsins um styrk fyrir hleðslustöðvum á Norðurlandi fyrir rafbíla. Sveitarfélagið Skagafjörður var aðili að umsókninni og verður ein hraðhleðslustöð staðsett í Varmahlíð og önnur á Sauðárkróki.
Þá kom fram á sama fundi að Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, ætli að gefa öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöð fyrir rafbíla, alls um 80 talsins. Með þessu vill fyrirtækið auðvelda rafbílaeigendum að komast leiðar sinnar hringinn í kringum landið. Orkusalan hefur afhent Sveitarfélaginu Skagafirði eina hleðslustöð sem verður staðsett á Sauðárkróki í framtíðinni.
Sagt var frá því í DV fyrr í vikunni að fyrirtækið Íslenskt eldsneyti, sem ráðgerði að setja upp rafhleðslustöð á Sauðárkróki, væri komið í þrot. Verður því ekkert af þeim framkvæmdum né bíódísilstöð sem fyrirtækið áformaði einnig að reisa á Sauðárkróki.
Tengd frétt: Orkusalan gefur hleðslustöðvar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.