Skipulagt rafmagnsleysi í Húnabyggð og á Skagaströnd
Á heimasíðunni huni.is segir að vegna vinnu við stækkun spenna í aðveitustöðinni á Laxárvatni og vegna aðgerða til styrkingar á dreifikerfi Rarik verður rafmagnslaust í stórum hluta Húnabyggðar og á Skagaströnd í næstu viku:
- Mánudaginn 1. september frá kl. 05:00 til 07:00
- Fimmtudaginn 4. september frá kl. 23:00 til kl. 05:00 að morgni 5. september.
Stækkun spenna er stór aðgerð sem tekur nokkra daga að ljúka. Meðan á stækkuninni stendur mun Húnabyggð fá rafmagn frá Hrútatungu um 19kV kerfi frá 1.-4. september. Skagaströnd og Skagabyggð verða tengd við 11kV kerfi okkar frá Laxárvatni auk varaaflsvélar til að anna álagstoppum þessa sömu daga. Rarik biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og vonar að íbúar á svæðinu sýni aðgerðunum skilning og aðstoði við að láta fleiri vita svo öll geti gert viðeigandi ráðstafanir.
Stækkun spenna og styrking dreifikerfisins er liður í því að auka afhendingargetu Rarik og afhendingaröryggi á svæðinu. Eftir stækkunina mun afhendingargeta frá aðveitustöðinni á Laxárvatni aukast úr 3,5 MW í um 6,5MW. Nýr jarðstrengur fyrir Skagaströnd og Skagabyggð verður tengdur í þessum aðgerðum og kemur hann í stað gömlu Skagastrandarlínunnar. Einnig bætist við 11kV strengur inn á Blönduós en hann var boraður undir ána Blöndu nú í sumar.
Upplýsingar um leiðir til að draga úr líkum á tjóni frá rafmagni vegna, t.d. þegar rafmagn fer af (hvort sem um er að ræða skipulagt eða fyrirvaralaust rafmagnsleysi) má finna hér: https://www.rarik.is/spurt-og-svarad/spurt-og-svarad/til-ad-draga-ur-likum-a-tjoni-fra-rafmagni