Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Kattarauga i Vatnsdal

Kattarauga í Vatnsdal. Mynd: Ust.is.
Kattarauga í Vatnsdal. Mynd: Ust.is.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar, Húnavatnshrepps og landeigenda Kornsár 2 í Vatnsdal hafa undanfarið unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir náttúruvættið Kattarauga og hefur hún verið lögð fram til kynningar. Er áætluninni ætlað að vera stefnumótandi skjal og hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun Kattarauga og það hvernig verndargildi svæðisins verði best viðhaldið þannig að sem mest sátt ríki um.

Í inngangi að stjórnunar- og verndaráætluninni segir: „Náttúruvættið Kattarauga er alldjúp tjörn sem í eru tveir fljótandi gróðurhólmar sem reka undan vindi. Mikið og stöðugt vatnsrennsli er í gegnum tjörnina. Í botni hennar er lindarauga sem glittir á þegar logn er og bjartur dagur. Af lindarauganu dregur tjörnin nafn sitt. Var náttúruvættið friðlýst með auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 522/1975. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda tjörnina Kattarauga, hólmana sem í henni eru og tjarnarbakkana. Svæðið var friðlýst á grundvelli 24. gr. áður gildandi laga nr. 47/1971 um náttúruvernd.“

Í áætluninni stendur að haft skuli að leiðarljósi fyrir náttúruvættið Kattarauga að náttúrufar og ásýnd svæðisins haldist ósnortið. Leggja skuli áherslu á fræðslu um náttúruvættið þannig að gestir séu upplýstari um svæðið þegar þeir fara en þegar þeir komu og hvatt verði til ábyrgrar umgengni. Lagt skal upp með að gott samstarf sé ávallt á milli hlutaðeigandi aðila.

Stjórnunar- og verndaráætlunin gildir til tíu ára eða til ársins 2027. Henni er skipt í þrjá kafla, þeir tveir fyrstu innihalda bakgrunnsupplýsingar um Kattarauga en stefnumótun og markmið fyrir svæðið eru í þriðja kaflanum. Ennig fylgir henni aðgerðaáætlun sem gildir til fimm ára en að þeim tíma liðnum skal meta árangur verndarráðstafana og endurskoða og uppfæra aðgerðaáætlunina.

Í samstarfshópnum sem vann að gerð áætlunarinnar sátu:

Ingibjörg Marta Bjarnadóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar,
Kristín Ósk Jónasdóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar,
Magnús Rúnar Sigurðsson, fulltrúi Húnavatnshrepps, 
Sigurður Ingi Þorbjörnsson, landeigandi.

Stjórnunar- og verndaráætlunina má finna hér auk auglýsingar um friðlýsingu svæðisins frá 1975.

Hægt er að skila inn athugasemdum á heimasíðu stofnunarinnar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík fyrir 23. mars nk.  Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Marta Bjarnadóttir, ingibjorgbj@umhverfisstofnun.is, eða í síma 591-2000

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir