Stóðu sig vel í Skólahreysti
Mikil spenna ríkti í Laugardalshöllinni í gærkvöldi þar sem úrslitakeppnin í Skólahreysti fór fram og var henni sjónvarpað beint á RÚV. Norðurland vestra átti þar fulltrúa úr tveimur riðlum, lið Grunnskóla Húnaþings vestra sem keppir í Vesturlandsriðli og lið Varmahlíðarskóla sem vann Norðurlandsriðilinn.
Tólf skólar háðu keppni og fóru leikar svo að Varmahlíðarskóli landaði fjórða sætinu og Grunnskóli Húnaþings vestra því sjötta. Er þetta besti árangur beggja skóla frá upphafi en Varmahlíðarskóli hefur þrisvar áður komist í úrslit og Grunnskóli Húnaþings vestra tvisvar.
Grunnskóli Húnaþings vestra deildi fyrsta sætinu í armbeygjum með Brekkuskóla. Það var Leonie Sigurlaug Friðriksdóttir sem tók 56 armbeygjur og hún gerði sér líka lítið fyrir í hreystigreipinni og hékk í fimm mínútur og 33 sekúndur, tveimur og hálfri mínútu lengur en næsti keppandi. Þá sýndi Varmahlíðarskóli mikla snerpu í hraðaþrautinni og hafnaði í öðru sæti.
Sannarlega góður árangur hjá krökkunum.
Þeir sem misstu af útsendingu sjónvarpsins frá Skólahreysti í gærkvöldi geta horft á þáttinn hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.