Styttist í að framkvæmdir við Þverárfjallsveg um Refasveit og Skagastrandarveg um Laxá fari í útboð

Yfirlitsmynd af síðu Vegagerðarinnar. Bláa línan sýnir ný vegastæði.
Yfirlitsmynd af síðu Vegagerðarinnar. Bláa línan sýnir ný vegastæði.

Eins og sjálfsagt flestir íbúar á Norðurlandi vestra vita þá stendur til að hefja framkvæmdir við Þverárfjallsveg um Refasveit og Skagastrandarveg um Laxá á næstunni en heildarlengd nýrra vega- og brúar verða um 11,8 km. Nú styttist í að verkið verði boðið út en fjárveitingar til verksins eru á samgönguáætlun fyrir árin 2022 til 2024 eða samtals um tveir milljarðar króna og verður stærsta verkefni Vegagerðarinnar á Norðurlandi vestra næstu misserin.

Heildarlengd nýrra vega- og brúar er um 11,8 km. Forsendur fyrir framkvæmdum við nýjan veg eru skv. frummatsskýrslu Vegagerðarinnar að Skagastrandarvegur (74) í Refasveit og að Höskuldsstöðum er stofnvegur en með varhugaverða hæðar- og planlegu. Vegsýn er víða skert. Þá liggur vegurinn þvert í gegnum vatnsverndarsvæði, auk útivistar- og skógræktarsvæðis. Núverandi brú á Laxá er einbreið með varhugaverðri hæðar- og planlegu. Vegsýn er mjög skert og slæm aðkoma að brúnni beggja vegna. Neðribyggðarvegur (741) er tengivegur, einbreiður malarvegur með mörgum tengingum.

Markmiðið með framkvæmdinni er að bæta og tryggja greiðar samgöngu á Norðurlandi vestra og hafa þannig jákvæð áhrif á samfélagið auk þess að gera samgöngur á svæðinu öruggari. Framkvæmdasvæðið er í Blönduósbæ og Skagabyggð. Sveitarfélagamörk liggja um Laxá.

Nýbygging Þverárfjallsvegar er 8,5 km að lengd en nýbygging Skagastrandarvegar er 3,2 km löng. Vegirnir verða 8 m breiðir, nokkuð uppbyggðir og verða lagðir bundnu slitlagi, þ.e. klæðingu. Vegurinn verður hannaður fyrir 11,5 t öxulþunga.

Byggðar verða samtals tíu nýjar vegtengingar að býlum, urðunarstað og núverandi vegum. Þær munu tengjast nýjum vegum á 8 stöðum. Nýjar vegtengingar verða 4 m breiðar (vegtegund D) nema tenging að Stekkjarvík sem verður 7 m breið

Byggð verður ný brú yfir Laxá og verður hún staðsett um 0,8 km í loftlínu neðan við núverandi brú. Ný brú er 109 m löng eftirspennt bitabrú í þremur höfum. Akbraut brúar verður 9,0 m að breið og bríkur 0,5 m breiðar. Heildarbreidd er því 10 m.

Reiknuð efnisþörf vegna framkvæmdarinnar er 310 - 365 þús. m3. Áætlað hefur verið að stór hluti þess komi úr skeringum meðfram vegi og það sem upp á vantar komi úr námum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.

Að auki verða fjögur búfjárgöng sett í vegina, þ.e. við Blöndubakka, Bakkakot, Sölvabakka og Höskuldsstaði. Veglýsing verður framlengd út fyrir ný vegamót Þverárfjallsvegar við Hringveg.

Sjá nánar hér og hér >

Heimildir: Vegagerðin.is og Morgunblaðið

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir