Sumarið í sveitinni - Frábær bók í ferðalagið

Búast má við því að margir verði á faraldsfæti í sumar og þeysi um sveitir landsins. Þau Guðjón Ragnar Jónasson, sem starfar sem forstöðumaður við Háskólann og Bifröst, og Harpa Rún Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur, ákváðu þegar vart sást út úr Kófinu að skrifa barnabókina Sumarið í sveitinni.

Í bókinni eru fjölmargar spurningar og svör sem tengjast lífinu í sveitum landsins. Veit fólk til dæmis hvaða starfi kúarektorar gegna? Eða hver er metfjöldi fæddra grísa í einu goti í Húsdýragarðinum? Eða hvað það þýðir eiginlega að marka lömbin? Svörin við þessu og mörgu fleiru er að finna í bókinni, sem er tilvalinn ferðafélagi þegar við skoðum landið okkar. Það var einmitt sú hugsun sem vaknaði hjá þeim Guðjóni og Hörpu þegar þau ákváðu að skrifa bókina, vitandi að ferðaþyrstir landsmenn kunna vel að meta sögur og sagnir úr sveitinni.

Það er Jón Ágúst Pálmason sem myndskreytir bókina og gefa myndirnar henni fjölbreyttan og lifandi blæ. Sumar þeirra eru sérstaklega hugsaðar fyrir unga lesendur til að lita og eru þeir hvattir til að kynna sér búfjárlitina og hafa vökult auga með mislitum skepnum sem sjá má í sveitinni.

Þá eru í bókinni ýmsir fróðleiksmolar um fræg dýr og frækin, Sörla og skagfirsku hrossin, Fjalla-Bensa og samfélagsmiðlahrútinn Lilla, svo eitthvað sé nefnt. Einnig má finna teikningar af ýmsum þjóðsagnaskepnum, sem margar eru í ætt við íslensku dýrin, og ráðleggingar um hvernig skuli bregðast við ef þú rekst á þær!

Það er bókaútgáfan Veröld sem gefur bókina út.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir