Sveitabakarí vill leigja Víðihlíð
Á fundi byggðaráðs Húnaþings vestra sl. mánudag var tekið fyrir bréf frá Sveitabakaríi sf. með ósk um viðræður um leigu á Félagsheimilinu Víðihlíð undir starfsemi fyrirtækisins með möguleika á kaupum á húsinu til lengri tíma litið. Þrír aðilar eru eigendur að húsinu, Húnaþing vestra sem á 45%, Ungmennafélagið Víðir á 45% og Kvenfélagið Freyja á 10%. Erindinu var vísað til stjórnar félagsheimilisins í því skyni að kanna afstöðu eigenda hússins til málsins.
Sveitabakarí er í eigu fjölskyldunnar á Auðkúlu í A-Húnaþingi. Bakaríið sérhæfir sig í framleiðslu á „gamaldags bakkelsi“ með vöruvöndun og íslenskar hefðir að leiðarljósi, að því er segir á heimasíðu fyrirtækisins en þar eru framleiddar flatkökur, rúgbrauð, kleinur, ástarpungar, partar og ýmsar sultur og hlaup svo eitthvað sé nefnt.